Afmæli að mínu skapi

Alveg þori ég að leggja höfuðið að veði um að þetta afmæli hefur verið miklu skemmtilegra ónefnt fimmtugsafmæli sem haldið var á höfninni nýlega. Þarna hefur örugglega verið skemmtilegra fólk og svo var tónlistin greinilega miklu betri. Það held ég sé meira varið í þessar íslensku hljómsveitir heldur en bæði Elton John og Duran Duran til samans!
mbl.is Sautján hljómsveitir í fimmtugsafmæli Árna Matthíassonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir í Undralandi

Undralandið

Forsætisráðherra landsins heldur að ef að bankarnir græða þá sé í allt í lagi í efnahagslífi landsins. Þess eru reyndar mörg dæmi úr mannkynssögunni að ráðamenn haldi að það sé allt í lagi. Þeir sem hafa mest græða nefnilega svo mikið. Þá hljótum við bara öll sömul að vera glöð og ánægð. Annars erum við barasta vanþakklát - nú eða kannski hælbítar - eins og einn þeirra sem notið hefur góðs af stefnu ríkisstjórnarinnar orðaði það svo skemmtilega.

Já, ef einhver bendir  á að eitthvað sé að í efnahagsstjórninni, eins og Ingibjörg Sólrún gerði á þingi nýlega,  nú þá hlýtur viðkomandi bara að búa í einhverju Undralandi. Það hlýtur að vera rétt fyrst að forsætisráðherrann segir það.

 En kannski er það hann sem býr í Undralandinu. Undralandi þeirra sem engin tengsl hafa við fólkið í landinu. Undralandi þeirra sem geta ekki ímyndað sér að nokkurn muni um 21.000 kr. greiðslubyrði til viðbótar á mánuði. Undralandi þotuliðsins, liðsins sem græddi á einkavæðingunni og munar ekki um að borga tugi eða hundruði milljóna fyrir eina afmælisveislu.

 Við hin sitjum bara eftir með okkar 22% yfirdráttarvexti, húsnæðislánin síhækkandi, matarokrið og skiljum ekkert í þessu Undralandi forsætisráðherrans. Við þurfum nefnilega að lifa á laununum okkar. Við þurfum að eignast þak yfir höfuðið, við þurfum að borga sjálf fyrir matinn okkar enda var okkur ekki boðið í montveislur einkavinaaðalsins og við þurfum að borga fyrir leikskóla barnanna, lengdu viðveruna, tónlistarskólann, íþróttaæfingarnar, já og við þurfum líka að borga skólagjöld í framhaldsskóla barnanna okkar og fyrir skólabækurnar þeirra.

 Það er nefnilega dýrt að lifa á Íslandi fyrir þau okkar sem ekki byggjum Undraland forsætisráðherrans.  Kannski hann ætti að koma niður til okkar hinna - úr Undralandinu sínu.

 

 


Hundrað ára afmælið

Í gær átti Kvenréttindafélag Íslands hundrað ára afmæli. Í gær tapaði Margrét Sverrisdóttir, besti liðsmaður Frjálslynda flokksins, í varaformannskjöri. Í gær var ákveðið að setja konu sem ekki tók þátt í prófkjöri Framsóknarflokksins á Suðurlandi upp fyrir skelegga og öfluga konu; Eygló Harðardóttur sem tók þátt í prófkjörinu og náði þar ágætum árangri.

Í dag héldu svo áfram árásirnar á Ingibjörgu Sólrúnu. Eins og í gær, eins og daginn þar á undan og eins og þá daga sem komu þar á undan. Hrafn Jökulssonar (bloggvinur minn) virðist hafa lítið annað að gera en að níða af henni skóinn. Það gerir hann af þeirri stílfimi sem hann á kyn til. Reyndar gerði hann hlé á skrifunum síðast liðinn föstudag til þess að ræða fréttir vikunnar á Rás2 við Sigríði Dögg, ritstjóra Krónikunnar sem bráðum hefur göngu sína. Það spjall endaði hann á því að biðja Sigríði um vinnu. Hrafn sem er fyrrverandi ritstjóri Alþýðublaðsins yrði eflaust ágætur liðsmaður blaðsins. Þar gæti hann skrifað um skák, Grænland, Indíana í Kanada og fleira áhugavert. Spurningin er bara hvort hann fengi líka að skrifa um pólítík, sem þegar Hrafn lemur lyklaborð þýðir bara eitt; Árásir á formann Samfylkingarinnar.

Hrafn er svo sem ekki einn um þetta. Frá því að Ingibjörg Sólrún fór í þingframboð árið 2003 hefur það verið íþrótt stórs hóps fólks að ráðast gegn henni. Það var reyndar ekkert nýtt. Á meðan hún var borgarstjóri þóttu ungum sjálfstæðismönnum við hæfi að kalla hana sköllótta mussukonu. Fleiri slík dæmi mætti týna til þar sem útlit hennar var notað gegn henni. Þetta þekkja konur í pólítík og reyndar víðar. Þannig er ekki langt síðan að ræðumaður í Morfískeppni, ræðukeppni framhaldsskólanna, svaraði rökum konu úr hinu liðinu þannig að hún væri svo feit að hann hefði ekki getað annað en starað á hana og ekkert heyrt hvað hún sagði. Þetta finnst (einhverjum) framhaldsskólanemendum sniðugt en kannski sagði ræðumaðurinn  bara upphátt það sem hinir fullorðnu hugsa en segja ekki. Sumir segja eða skrifa reyndar í fullu samræmi við þessa hugsun. Gott dæmi um það er Jón Magnússon sem nú er kominn í Frjálslynda flokkinn. Hann vildi skipuleggja blaðamannafund til kynningar á inngöngu sinna manna í Frjálslynda þannig að ekki væru bara tveir kallar heldur líka kona og blómvöndur til staðar. Já einmitt. Konan átti að vera til skrauts alveg eins og blómvöndurinn. Það dettur hins vegar engum í hug að hlusta á hana ekki frekar en Morfísræðukonuna sem ekki uppfylltu fegurðarstaðla Janice Dickensons og var því eins og Laddi segir svo smekklega í laginu: "Of feit fyrir mig."  

 Ingibjörg Sólrún og Margrét Sverrisdóttir hafa gert þau mistök að halda að þeir geti náð völdum - raunverulegum völdum í landsmálapólítíkinni. Það líkar körlunum ekki og þá er gengið í að taka þær niður. Það er gert með ýmsu móti, með rógi og illmælgi eða með atkvæðasmölun og jafnvel atkvæðakaupum. Nú er eftir að sjá hvað Margrét Sverrissdóttir gerir og hvort að tekst að taka Ingibjörgu Sólrúnu endanlega niður. Kannski Jón Baldvin, "Guðfaðirinn" sjálfur sé þá tilbúinn að taka við. Hann er jú vanur að leiða jafnaðarflokka til sigurs. Eða var það ekki annars?


Hermenn drepa - það er þeirra starf

Kannski er ástæða til þess að bæta aðeins við færsluna hér að neðan þar sem ég kommentera á frétt um að hermaður hafi verið dæmdur fyrir morð. Ég svaraði kommenti þar en bæti aðeins við það hér. Ég veit alveg að í stríði gildi ákveðnar reglur og að hægt er að fremja stríðsglæpi ef þú drepur við einar aðstæður en ekki við aðrar.

  En með athugasemdinni er ég auðvitað bara að benda á hve viðbjóðslegt starf hermannsins er og hvað það hljómar undarlega að tala um að þegar hermaður drepi við eitt tækifæri þá sé hann hetja en þegar hann drepur við annað tækifæri þá sé hann morðingi. Það er glæpur að taka líf annars manns en hermenn eru þjálfaðir í að drepa.

 Mér skilst reyndar að hlutfall þeirra hermanna sem eru raunverulega tilbúnir að drepa hafi hækkað verulega frá því sem áður var eða gerðist í öðrum stríðum. Hvort sú þróun byrjaði í Víetnamstríðinu. Man þetta ekki alveg en þessi breyting hlýtur að hafa eitthvað með þjálfun hermanna að gera. Þegar þú ert búinn að þjálfa mann þannig að hann sé tilbúinn til þess að  drepa þá er kannski ekkert skrítið að hann geri það líka við aðrar aðstæður en á vígvellinum.  


Eru mennirnir vitlausir?

 

Sauðfjármálaráðherrann (eins og Guðmundur Steingrímsson kallar hann), leiðtogi framsóknarmanna í Suðurkjördæmi og landbúnaðarráðherra skrifuðu í dag undir samning við fullrúa bænda um að setja 16.000.000.000 krónur í sauðfjárrækt á næstu sjö árum. Um þetta hafa fæst orð minnsta ábyrgð.

sauðfé
 

 

 Einhverjir telja þetta til vitnis um að það séu að koma kosningar. Ef svo er þá sýnir það betur en nokkuð annað að kosningakerfið okkar er enn handónýtt. Ef einhver veit hve sauðfjárbú á landinu eru mörg á landinu þá má gjarnan upplýsa það hér á athugasemdakerfinu. Ég veit það ekki. Veit bara að þeir eru örugglega ekki það margir að það geti skipt máli í kosningum. Eða getur það verið?

Hins vegar veit ég um fullt af góðum hlutum sem má nota 16 milljarða í. Ég veit líka um fullt af fólki sem blöskrar þessi fjárútlát en það er líklega hvorki í kosningahópi Framsóknar- né Sjálfstæðisflokks.


mbl.is Nýr sauðfjársamningur undirritaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær myrðir hermaður mann?

Og ég sem hélt að það væri starf hermannsins að drepa fólk. 
mbl.is Bandarískur hermaður viðurkennir að hafa myrt íraska fanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

A-Ö framboðið

Sé að aldraðir og öryrkjar ætla að fara að bjóða fram. Búið að stofna undirbúningsnefnd með nokkrum körlum sem eflaust munu keppa við Frjálslyndaflokkinn um hvernig hægt verður að komast upp með bjóða fram sem fæstar konur. Það er nema "frjálslyndir" hafa vit á því að gera Möggu að varaformanni.

Með þessu sameiginlega A-Ö framboði er enn verið að stimpla það inn í fólk að aldraðir og öryrkjar eigi eitthvað ofboðslega mikið sameiginlegt. Það er rangt. Að vísu hafa eiga flestir þeirra sem eru orðnir 67 ára rétt á lífeyri frá Tryggingastofnun á sambærilegan hátt og þeir sem hafa verið metnir til meira en 75% örorku.  Þar endar samanburðinum.

 Öryrkjar eru, samkvæmt skilgreiningu, óvinnufærir. Þeir geta ekki stundað fulla vinnu vegna einhvers konar heilsubrests eða fötlunar. Sumir geta endurhæft sig og náð aftur fyrri starfsorku en því miður er allt of lítið gert til þess að aðstoða þá við það og þannig hjálpa þeim til þess að hjálpa sér sjálfir. Í hópi öryrkja er fólk sem hefur verið öryrkjar frá unga aldri, hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð og aldrei getað eignast íbúð. Þetta fólk er verulega illa statt ef það þarf að lifa eingöngu af greiðslum Tryggingastofnunar. Aðrir hafa misst heilsuna síðar á ævinni og hafa þá e.t.v. náð að koma sér upp þaki og safna í lífeyrissjóð. Því miður hefur sú söfnun allt of mikil áhrif til skerðingar. Það gera líka þær tekjur sem öryrkjar hafa af því að reyna að vinna. Vinnu sem oft hefur góð áhrif á líðan einstaklingsins og getur átt þátt í koma honum aftur út á atvinnumarkaðinn og af lífeyri. Þarna virka skerðingarreglur hamlandi og gegn endurhæfingu sem getur falist í því að reyna að vinna.

Skerðingarreglurnar virka á svipaðan hátt fyrir ellilífeyrisþega og fyrir öryrkja, þó að nú hafi örlítið verið dregið úr skerðingunni vegna tekna öryrkja. Munurinn felst í aðstöðunni. Í flestum tilfellum hafa ellilífeyrisþegar unnið alla ævi og hafa komið sér upp þaki yfir höfuðið. Það er þó alls ekki algilt, sumir ellilífeyrisþegar voru öryrkjar á meðan aðrir eru forríkir. Einn elilífeyrisþegi á því ekkert endilega svo mikið sameiginlegt með öðrum ellilífeyrisþega nema það að báðir eru orðnir 67 ára. Þannig fara hagsmunir bankastjóra á eftirlaunum og Eflingarkonu á eftirlaunum bara alls ekki saman.

Bankastjórinn vill lægri fjármagnstekjuskatta, lægri fasteignagjöld, sem minnsta ef nokkrartekjutengingar og svo auðvitað fína þjónustu þegar hann kemur heim til Íslands í sumarfrí frá Bahamas þar sem hann annars heldur til og á í rauninni heima. Hann hefur verið að velta því fyrir sér að flytja lögheimilið sitt þangað vegna skattareglna en komst svo að því að þá þyrfti hann að borga stórfé fyrir að koma í sitt reglulega kransæðatékk heima á Íslandi, þannig að hann sleppti því og lætur endurskoðandann hjálpa sér að fiffa mál þannig að hann komist upp með að búa á Bahamas, borga sem minnsta skatta á Íslandi og njóta góðs af íslenska sjúkratryggingakerfinu þegar honum hentar. Þegar hann verður enn eldri ætlar hann svo auðvitað heim á einkarekna hjúkrunarheimilið sem hann hefur styrkt byggingu á. Hann treystir ekki alveg hjúkrunarfólkinu úti. Hér heima eru þó að minnsta kosti hjúkkurnar og læknarnir íslensk - ennþá.

Eflingarkonan vill komast af. Svo einfalt er það.   

Hagsmunir þessa fólks fara ekki saman nú og gera það ekkert frekar þó að stofnað sé sérstakt framboð aldraðra og öryrkja. Í forystu eldri borgara hefur gjarnan valist fólk sem sjálft hefur verið í góðum stöðum. Haft það ágætt og hefur það enn. Það fólk á erfitt með að skilja áhyggjur þeirra sem lægstu lífeyrisgreiðslurnar hafa, þurfa að lifa á strípuðum almannatryggingabótunum. En skilur hins vegar betur áhyggjur kvótaekkjunnar sem vissulega hefur ekki háar tekjur en á miklar eignir og býr ein í þrjú hundruð fm. einbýlishúsi sem hún þarf auðvitað að borga fasteignafgjöld af. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að til forystu í þessu nýja framboði sé einmitt að veljast svona fólk. Fólk sem skilur stóreignafólkið í hópi eldri borgara - og af þeim er svo sannarlega nóg - en á erfiðara með að sitja sig í spor hinna sem minnst hafa.

 Við skulum vona að svo sé ekki. Að þetta framboð muni berjast fyrir hag þeirra sem verst kjör hafa. Við skulum líka vona að þetta framboð verði ekki til þess að stjórnin haldi velli.


Nefskatturinn felldi frú Thatcher

margaret_thatcherÁrið 1990 var settur á nýr skattur í Bretlandi. Þremur árum fyrr hafði Íhaldsflokkur Margrétar Thatcher unnið meirihluta í þriðja skiptið í röð. Frú Thatcher virtist ósigrandi - en þá kom nefskatturinn til sögunnar. Aldrei hafði jafn óvinsæll skattur verið settur á í því landi og þessi "poll tax". Hann þótti lýsandi fyrir fyrirlitningu Thatcher og ríkisstjórn hennar á þeim sem minna höfðu og varð kveikjan að mótmælum um allt landið.  Vorið 1990 tóku yfir 200.000 manns þátt í mótmælum gegn skattinum. Skatturinn var sérstaklega óvinsæll vegna þess að hann kom jafnt niður á öllum þeim sem vildu skrá sig á kjörstað. DefyPollTaxMargir litu svo á skattinum væri sérstaklega ætlað að koma í veg fyrir að hinir fátækari - þeir sem voru líklegri til þess að kjósa Verkamannaflokkinn - kysu.

 

Nefskattur ásamt andstöðu frú Thatcher við Evrópusambandið og deilur innan hennar eigin flokks urðu til þess að fella Margaret Thacher bæði sem forsætiráðherra og formanns Íhaldsflokkurinn. Við tók John Major sem nokkrum árum síðar varð að lúta í lægra haldi fyrir Tony nokkrum Blair sem enn situr. Það var þessi baráttu gegn nefskattinum sem sósíalistarnir á The Militant kalla:

The Battle that brought down Thatcher

 Hér á Íslandi er íhaldsstjórn sem nýlega hefur samþykkt nýjan skatt; nefskatt sem mun koma sérstaklega illa niður á þeim sem hafa lágar tekjur. Hins vegar verða þeir sem lifa á fjármagnstekjum undanþegnir skattinum. Þessi skattur var samþykktur á Alþingi í morgun sem þáttur í nýjum lögum um Ríkisútvarpið OHF. Hann er enn eitt dæmið um þá ranglátu skattlagningu sem þessi ríkisstjórn stundar. Hún leggur ekki á hátekjuskatta. Ónei, þá afnemur hún. Ríkisstjórn Íslands leggur hins vegur á lágtekjuskatta. Kannski þessi nýji lágtekjuskattur þeirra verði síðasti naglinn í líkkistu íhaldsstjórnarinnar okkar. Þorgerður Katrín er engin Thatcher og Geir Haarde á heldur ekki mikið sameiginlegt með járnfrúnni. En kannski þau muni eiga þetta sameiginlegt með frú Thatcher: Að falla á nefskattinum.


Hjálmar hættir í pólítík - en vill samt ráða.

Jæja, það hlaut að koma að þessu. Komin á Moggabloggið. Það á svo eftir að koma í ljós hversu dugleg ég verð að skrifa.

 

Annars er það merkilegt með hann Hjálmar Árnason; fellur í prófkjöri, segist vera hættur í pólítík en þykist samt vera í stöðu til þess að skipta sér af því hver kemur í stað hans á lista Framsóknarflokksins á Suðurlandi. Hann fékk ekki brautargengi og þar með er enginn Suðurnesjamaður á listanum. Það var hins val þeirra sem þátt tóku í prófkjörinu og lítið við því að gera. Svo er það auðvitað spurning hvers vegna það þarf að vera svona mikilvægt að fá Suðurnesjamann á þing. Er ekki t.d. mikilvægara að fá hugsjónamanneskju á þing, einhverja sem hugsar um hag almennings, sama hvar sá ágæti almenningur býr?

 Það er stundum eins og kjördæmapotið hafi bara versnað við stækkun kjördæmanna, nú þarf ekki bara að hugsa um að á listunum séu ungir og gamlir, fólk úr ýmsum stéttum o.sv.fr.v, heldur virðist líka alveg bráðnauðsynlegt að þar sé líka fólk úr öllum afkimum viðkomandi kjördæmis. Hins vegar virðist það ekki eins mikilvægt þeim sem svona hugsa að ofarlega á lista séu bæði karlar og konur. Það var ekki fyrr en Hjálmar blessaður var fallinn, hættur og horfinn úr pólítík sem það var orðið mikilvægt að fá konu frá Suðurnesjum. Spurning hvort þurfi ekki bara að gera eins og hann Björgvin G. leggur til og koma á einu kjördæmi fyrir allt landið. Þá eru kannski líkur á því að konum á þingi fjölgi eitthvað en því miður virðist þeim ætla að fækka eftir þessar kosningar.

 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband