Hundrað ára afmælið

Í gær átti Kvenréttindafélag Íslands hundrað ára afmæli. Í gær tapaði Margrét Sverrisdóttir, besti liðsmaður Frjálslynda flokksins, í varaformannskjöri. Í gær var ákveðið að setja konu sem ekki tók þátt í prófkjöri Framsóknarflokksins á Suðurlandi upp fyrir skelegga og öfluga konu; Eygló Harðardóttur sem tók þátt í prófkjörinu og náði þar ágætum árangri.

Í dag héldu svo áfram árásirnar á Ingibjörgu Sólrúnu. Eins og í gær, eins og daginn þar á undan og eins og þá daga sem komu þar á undan. Hrafn Jökulssonar (bloggvinur minn) virðist hafa lítið annað að gera en að níða af henni skóinn. Það gerir hann af þeirri stílfimi sem hann á kyn til. Reyndar gerði hann hlé á skrifunum síðast liðinn föstudag til þess að ræða fréttir vikunnar á Rás2 við Sigríði Dögg, ritstjóra Krónikunnar sem bráðum hefur göngu sína. Það spjall endaði hann á því að biðja Sigríði um vinnu. Hrafn sem er fyrrverandi ritstjóri Alþýðublaðsins yrði eflaust ágætur liðsmaður blaðsins. Þar gæti hann skrifað um skák, Grænland, Indíana í Kanada og fleira áhugavert. Spurningin er bara hvort hann fengi líka að skrifa um pólítík, sem þegar Hrafn lemur lyklaborð þýðir bara eitt; Árásir á formann Samfylkingarinnar.

Hrafn er svo sem ekki einn um þetta. Frá því að Ingibjörg Sólrún fór í þingframboð árið 2003 hefur það verið íþrótt stórs hóps fólks að ráðast gegn henni. Það var reyndar ekkert nýtt. Á meðan hún var borgarstjóri þóttu ungum sjálfstæðismönnum við hæfi að kalla hana sköllótta mussukonu. Fleiri slík dæmi mætti týna til þar sem útlit hennar var notað gegn henni. Þetta þekkja konur í pólítík og reyndar víðar. Þannig er ekki langt síðan að ræðumaður í Morfískeppni, ræðukeppni framhaldsskólanna, svaraði rökum konu úr hinu liðinu þannig að hún væri svo feit að hann hefði ekki getað annað en starað á hana og ekkert heyrt hvað hún sagði. Þetta finnst (einhverjum) framhaldsskólanemendum sniðugt en kannski sagði ræðumaðurinn  bara upphátt það sem hinir fullorðnu hugsa en segja ekki. Sumir segja eða skrifa reyndar í fullu samræmi við þessa hugsun. Gott dæmi um það er Jón Magnússon sem nú er kominn í Frjálslynda flokkinn. Hann vildi skipuleggja blaðamannafund til kynningar á inngöngu sinna manna í Frjálslynda þannig að ekki væru bara tveir kallar heldur líka kona og blómvöndur til staðar. Já einmitt. Konan átti að vera til skrauts alveg eins og blómvöndurinn. Það dettur hins vegar engum í hug að hlusta á hana ekki frekar en Morfísræðukonuna sem ekki uppfylltu fegurðarstaðla Janice Dickensons og var því eins og Laddi segir svo smekklega í laginu: "Of feit fyrir mig."  

 Ingibjörg Sólrún og Margrét Sverrisdóttir hafa gert þau mistök að halda að þeir geti náð völdum - raunverulegum völdum í landsmálapólítíkinni. Það líkar körlunum ekki og þá er gengið í að taka þær niður. Það er gert með ýmsu móti, með rógi og illmælgi eða með atkvæðasmölun og jafnvel atkvæðakaupum. Nú er eftir að sjá hvað Margrét Sverrissdóttir gerir og hvort að tekst að taka Ingibjörgu Sólrúnu endanlega niður. Kannski Jón Baldvin, "Guðfaðirinn" sjálfur sé þá tilbúinn að taka við. Hann er jú vanur að leiða jafnaðarflokka til sigurs. Eða var það ekki annars?


Bloggfærslur 28. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband