11.2.2007 | 14:41
Ég vissi þetta!
Nú er fylgi Samfylkingarinnar byrjað að aukast, alveg eins og ég átti von á. Það góða er að hún virðist ekki vera að taka af VG heldur af Framsókn og Sjálfstæðisflokknum. Svo kemur auðvitað í ljós að brottför Margrétar verður til þess að fylgi Frjálslyndra minnkar. Framsókn er alveg að hverfa og spennandi að sjá hvað spunameistarar hennar draga út úr ermum sér þegar nær dregur kosningum. Vonandi ekki neitt sem viðkemur íbúðamarkaðinum. Við höfum ekki efni á svoleiðis æfingum aftur en þá ber líka að líta á það að mjög ólíklegt er að Framsókn setjist í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.
Staðan er reyndar þannig ef litið er til könnunarinnar að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki einu sinni myndað meirihlutastjórn þó hann taki bæði Framsókn og Frjálslynda með upp í til sín. Nokkuð sem formaður flokksins, Geir Haarde sem nú er kominn í leitirnar eftir að hafa gleymt sér í Undralandinu sínu síðustu vikur, hefur lofað að gera ekki. Það vill nefnilega enginn starfa með Frjálslynda flokknum eins og hann er orðinn.
Mikill fjöldi óákveðinna er ekkert til þess að bæta stöðuna fyrir Sjálfstæðisflokkinn enda eru óákveðnir ekki vanir að kjósa þann flokk. Annað hvort kjósa menn Sjálfstæðisflokkinn eða hina. Nú eru hins vegar líkur til þess að við bætist Hægri grænn flokkur með öflugum frambjóðendum. Fylgi flokksins gæti því enn minnkað og bjartsýni Arnbjargar Sveinsdóttur í Fréttablaðinu í morgun því fullkomlega ástæðulaus.
Ánægjulegt er svo að sjá Ingibjörgu Sólrúnu benda á það í Fréttablaðinu að nú er hægt að mynda tveggja flokka stjórn án Sjálfstæðisflokksins. Ég leyfi mér að byrja þegar að láta mig dreyma um það og um vinstri stjórn þar sem umhverfismál, öflug mennta- og nýsköpunarstefna, uppbygging velferðarkerfinsins, réttlátara skattkerfi og kvenfrelsi eru í öndvegi.
Þannig stjórn vil ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)