23.1.2007 | 14:46
Hjálmar hættir í pólítík - en vill samt ráða.
Jæja, það hlaut að koma að þessu. Komin á Moggabloggið. Það á svo eftir að koma í ljós hversu dugleg ég verð að skrifa.
Annars er það merkilegt með hann Hjálmar Árnason; fellur í prófkjöri, segist vera hættur í pólítík en þykist samt vera í stöðu til þess að skipta sér af því hver kemur í stað hans á lista Framsóknarflokksins á Suðurlandi. Hann fékk ekki brautargengi og þar með er enginn Suðurnesjamaður á listanum. Það var hins val þeirra sem þátt tóku í prófkjörinu og lítið við því að gera. Svo er það auðvitað spurning hvers vegna það þarf að vera svona mikilvægt að fá Suðurnesjamann á þing. Er ekki t.d. mikilvægara að fá hugsjónamanneskju á þing, einhverja sem hugsar um hag almennings, sama hvar sá ágæti almenningur býr?
Það er stundum eins og kjördæmapotið hafi bara versnað við stækkun kjördæmanna, nú þarf ekki bara að hugsa um að á listunum séu ungir og gamlir, fólk úr ýmsum stéttum o.sv.fr.v, heldur virðist líka alveg bráðnauðsynlegt að þar sé líka fólk úr öllum afkimum viðkomandi kjördæmis. Hins vegar virðist það ekki eins mikilvægt þeim sem svona hugsa að ofarlega á lista séu bæði karlar og konur. Það var ekki fyrr en Hjálmar blessaður var fallinn, hættur og horfinn úr pólítík sem það var orðið mikilvægt að fá konu frá Suðurnesjum. Spurning hvort þurfi ekki bara að gera eins og hann Björgvin G. leggur til og koma á einu kjördæmi fyrir allt landið. Þá eru kannski líkur á því að konum á þingi fjölgi eitthvað en því miður virðist þeim ætla að fækka eftir þessar kosningar.
Athugasemdir
Eitt kjördæmi er nú ekki alveg uppfinning ungkrata, þetta er hins vegar eina leiðin til þess að losna við Framsóknarmenn og aðra sérhagsmunapotara. Mikilvægast er að fá fólk á þing sem hugsar um heildina ekki bara sína sérhagsmuni og ekki bara það að allir eigi að hafa það jafn slæmt. Við komumst ekki langt á þeim hugsunarhætti.
LM, 26.1.2007 kl. 00:06
Nei, var þetta ekki baráttumál Vilmundar Gylfasonar?
Ingibjörg Stefánsdóttir, 26.1.2007 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.