24.1.2007 | 23:48
A-Ö framboðið
Sé að aldraðir og öryrkjar ætla að fara að bjóða fram. Búið að stofna undirbúningsnefnd með nokkrum körlum sem eflaust munu keppa við Frjálslyndaflokkinn um hvernig hægt verður að komast upp með bjóða fram sem fæstar konur. Það er nema "frjálslyndir" hafa vit á því að gera Möggu að varaformanni.
Með þessu sameiginlega A-Ö framboði er enn verið að stimpla það inn í fólk að aldraðir og öryrkjar eigi eitthvað ofboðslega mikið sameiginlegt. Það er rangt. Að vísu hafa eiga flestir þeirra sem eru orðnir 67 ára rétt á lífeyri frá Tryggingastofnun á sambærilegan hátt og þeir sem hafa verið metnir til meira en 75% örorku. Þar endar samanburðinum.
Öryrkjar eru, samkvæmt skilgreiningu, óvinnufærir. Þeir geta ekki stundað fulla vinnu vegna einhvers konar heilsubrests eða fötlunar. Sumir geta endurhæft sig og náð aftur fyrri starfsorku en því miður er allt of lítið gert til þess að aðstoða þá við það og þannig hjálpa þeim til þess að hjálpa sér sjálfir. Í hópi öryrkja er fólk sem hefur verið öryrkjar frá unga aldri, hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð og aldrei getað eignast íbúð. Þetta fólk er verulega illa statt ef það þarf að lifa eingöngu af greiðslum Tryggingastofnunar. Aðrir hafa misst heilsuna síðar á ævinni og hafa þá e.t.v. náð að koma sér upp þaki og safna í lífeyrissjóð. Því miður hefur sú söfnun allt of mikil áhrif til skerðingar. Það gera líka þær tekjur sem öryrkjar hafa af því að reyna að vinna. Vinnu sem oft hefur góð áhrif á líðan einstaklingsins og getur átt þátt í koma honum aftur út á atvinnumarkaðinn og af lífeyri. Þarna virka skerðingarreglur hamlandi og gegn endurhæfingu sem getur falist í því að reyna að vinna.
Skerðingarreglurnar virka á svipaðan hátt fyrir ellilífeyrisþega og fyrir öryrkja, þó að nú hafi örlítið verið dregið úr skerðingunni vegna tekna öryrkja. Munurinn felst í aðstöðunni. Í flestum tilfellum hafa ellilífeyrisþegar unnið alla ævi og hafa komið sér upp þaki yfir höfuðið. Það er þó alls ekki algilt, sumir ellilífeyrisþegar voru öryrkjar á meðan aðrir eru forríkir. Einn elilífeyrisþegi á því ekkert endilega svo mikið sameiginlegt með öðrum ellilífeyrisþega nema það að báðir eru orðnir 67 ára. Þannig fara hagsmunir bankastjóra á eftirlaunum og Eflingarkonu á eftirlaunum bara alls ekki saman.
Bankastjórinn vill lægri fjármagnstekjuskatta, lægri fasteignagjöld, sem minnsta ef nokkrartekjutengingar og svo auðvitað fína þjónustu þegar hann kemur heim til Íslands í sumarfrí frá Bahamas þar sem hann annars heldur til og á í rauninni heima. Hann hefur verið að velta því fyrir sér að flytja lögheimilið sitt þangað vegna skattareglna en komst svo að því að þá þyrfti hann að borga stórfé fyrir að koma í sitt reglulega kransæðatékk heima á Íslandi, þannig að hann sleppti því og lætur endurskoðandann hjálpa sér að fiffa mál þannig að hann komist upp með að búa á Bahamas, borga sem minnsta skatta á Íslandi og njóta góðs af íslenska sjúkratryggingakerfinu þegar honum hentar. Þegar hann verður enn eldri ætlar hann svo auðvitað heim á einkarekna hjúkrunarheimilið sem hann hefur styrkt byggingu á. Hann treystir ekki alveg hjúkrunarfólkinu úti. Hér heima eru þó að minnsta kosti hjúkkurnar og læknarnir íslensk - ennþá.
Eflingarkonan vill komast af. Svo einfalt er það.
Hagsmunir þessa fólks fara ekki saman nú og gera það ekkert frekar þó að stofnað sé sérstakt framboð aldraðra og öryrkja. Í forystu eldri borgara hefur gjarnan valist fólk sem sjálft hefur verið í góðum stöðum. Haft það ágætt og hefur það enn. Það fólk á erfitt með að skilja áhyggjur þeirra sem lægstu lífeyrisgreiðslurnar hafa, þurfa að lifa á strípuðum almannatryggingabótunum. En skilur hins vegar betur áhyggjur kvótaekkjunnar sem vissulega hefur ekki háar tekjur en á miklar eignir og býr ein í þrjú hundruð fm. einbýlishúsi sem hún þarf auðvitað að borga fasteignafgjöld af. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að til forystu í þessu nýja framboði sé einmitt að veljast svona fólk. Fólk sem skilur stóreignafólkið í hópi eldri borgara - og af þeim er svo sannarlega nóg - en á erfiðara með að sitja sig í spor hinna sem minnst hafa.
Við skulum vona að svo sé ekki. Að þetta framboð muni berjast fyrir hag þeirra sem verst kjör hafa. Við skulum líka vona að þetta framboð verði ekki til þess að stjórnin haldi velli.
Athugasemdir
Ég held að þetta framboð muni aðeins taka fylgi frá Sjálfstæðisflokknum og Frjálslyndum.
Birgitta Jónsdóttir, 25.1.2007 kl. 05:48
Guð láti á gott vita. Nú eru hins vegar líkur á að þetta séu orðin tvö framboð aldraðra og öryrkja og því ekki gott að vita hvað gerist næst.
Ingibjörg Stefánsdóttir, 25.1.2007 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.