Geir í Undralandi

Undralandið

Forsætisráðherra landsins heldur að ef að bankarnir græða þá sé í allt í lagi í efnahagslífi landsins. Þess eru reyndar mörg dæmi úr mannkynssögunni að ráðamenn haldi að það sé allt í lagi. Þeir sem hafa mest græða nefnilega svo mikið. Þá hljótum við bara öll sömul að vera glöð og ánægð. Annars erum við barasta vanþakklát - nú eða kannski hælbítar - eins og einn þeirra sem notið hefur góðs af stefnu ríkisstjórnarinnar orðaði það svo skemmtilega.

Já, ef einhver bendir  á að eitthvað sé að í efnahagsstjórninni, eins og Ingibjörg Sólrún gerði á þingi nýlega,  nú þá hlýtur viðkomandi bara að búa í einhverju Undralandi. Það hlýtur að vera rétt fyrst að forsætisráðherrann segir það.

 En kannski er það hann sem býr í Undralandinu. Undralandi þeirra sem engin tengsl hafa við fólkið í landinu. Undralandi þeirra sem geta ekki ímyndað sér að nokkurn muni um 21.000 kr. greiðslubyrði til viðbótar á mánuði. Undralandi þotuliðsins, liðsins sem græddi á einkavæðingunni og munar ekki um að borga tugi eða hundruði milljóna fyrir eina afmælisveislu.

 Við hin sitjum bara eftir með okkar 22% yfirdráttarvexti, húsnæðislánin síhækkandi, matarokrið og skiljum ekkert í þessu Undralandi forsætisráðherrans. Við þurfum nefnilega að lifa á laununum okkar. Við þurfum að eignast þak yfir höfuðið, við þurfum að borga sjálf fyrir matinn okkar enda var okkur ekki boðið í montveislur einkavinaaðalsins og við þurfum að borga fyrir leikskóla barnanna, lengdu viðveruna, tónlistarskólann, íþróttaæfingarnar, já og við þurfum líka að borga skólagjöld í framhaldsskóla barnanna okkar og fyrir skólabækurnar þeirra.

 Það er nefnilega dýrt að lifa á Íslandi fyrir þau okkar sem ekki byggjum Undraland forsætisráðherrans.  Kannski hann ætti að koma niður til okkar hinna - úr Undralandinu sínu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Það var enginn að kvarta yfir því. Málið er bara skilningsleysi ráðamanna sem halda að það sé nóg að sumir græði á meðan aðrir drukkna í skuldasúpu.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 31.1.2007 kl. 23:31

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég er líka á því að þegar bilið breikkar og fleiri og fleiri verða mjög ríkir og líta á munað sem sjálfsagðan hlut verður æ erfiðara fyrir venjulegt fólk að neita sér um munaðinn. Og svo er enn síður hægt að ætlast til þess að börn hafi sjálfsaga og skilji að næsta barn á einfaldlega svo ríka foreldra að á því heimili þykir sjálfsagt að bruðla. Og þá er uppeldið í voða!

Ég veit að fasteignaverð hefur hækkað um alla Evrópu undanfarið en ég held að það hafi af þessum sökum hækkað óþarflega skart hérlendis á síðustu árum. Allir ætla að fá aðeins stærri bita af kökunni (hans Péturs ...).

Berglind Steinsdóttir, 1.2.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband