11.5.2007 | 00:13
Rós er rós er rós er rós
Í kjölfarið á alveg hreint indælli gönguferð um Vesturbæinn með sjálfum Ellerti Schram lá leiðin á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar. Ellert þekkti auðvitað annað hvort mann og hljóp sporléttur upp og niður stigana og blés ekki úr nös á meðan ég hljóp upp og niður af mæði. Þó er ég fáeinum árum yngri en Ellert. Það er víst ekki nóg að vera ung til þess að vera í góðu formi. Það þarf að vinna fyrir því.
Á kosningamiðstöðinni var líf og fjör; fólk að koma til baka eftir rósagöngurnar, aðrir að sækja bæklinga og merki til þess að dreifa og enn aðrir bara komnir í smá spjall. Nokkrar konur ræddu um Rósastríðið eins og fólk er farið að kalla rósagöngurnar okkar. Það gaf tilefni til smá umræðna um sagnfræði. Þær umræður liðu fyrir skort á sagnfræðingum á staðnum (hvorki Ingibjörg Sólrún né Steinunn Valdís voru viðstaddar). Össur gat hins vegar staðfest að Rósastríðið hefði verið háð í Englandi. Með þær upplýsingar að vopni fór ég heim og fletti Rósastríðinu upp í Google - besta vini forvitnu konunnar.
Örstutt rannsóknarvinna leiddi í ljós að ef orðinu Rósastríð er slegið upp í Google koma fyrst upp nokkrar færslur um kosningabaráttu Samfylkingarinnar vorið 2007. Síðan koma færslur um Rósastríðið sem háð var í Englandi á síðari hluta 15. aldar. Þar börðust tvær ættir um hver ætti að verða konungur. Rósastríðið dró úr áhrifum enska aðalsins.
Nú er spurningin bara hvaða aðall missir áhrif sín í kjölfar hins íslenska rósastríðs .
Athugasemdir
Til hamingju Ingibjörg mín, gaman að sjá Samfylkinguna svona stóra aftur og vonandi mynda hún og Sjálfstæðismenn stjórn.
Allt með Framsókn innanborðs hlýtur að vera slæmt!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.5.2007 kl. 10:14
Góður pistill. Það er greinilegt að víða hafa rósirnar farið. Mér finnst sérlega skemmtilegt að heyra þetta um nýja/gamla þingmanninn okkar sem er löngu orðið löglegt gamalmenni en ekki hægt að sjá það á nokkurn hátt. Hann kom á Akranes og var með innlegg á 60+ fundi hjá okkur og ég tók eftir því að þar fór maður sem bæði heillar fólk með framkomu og gefur mikið af sér. Það var gott að fá Ellert inn á þing þótt reiknikúnstin sé í meira lagi kúnstug.
Edda Agnarsdóttir, 20.5.2007 kl. 16:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.