26.1.2008 | 00:20
Fráleitur samanburður
Blaðamaður tuttugu og fjögura stunda líkir mótmælunum í Ráðhúsinu í gær við Gúttóslaginn.
Það er rétt að í báðum tilvikum þurfti að fresta fundi í stjórn Reykjavíkur. Þar lýkur samlíkingunni. Reykjavík var bær árið 1932. Hún er borg nú. Fjöldi fólks slasaðist í Gúttóslagnum. Enginn beitti ofbeldi í Ráðhúsinu í gær. Ég veit það. Ég var á staðnum.
Hins vegar tók afi minn, Þorsteinn Pjetursson þátt í Gúttóslagnum. Þar var barist um brauðið. Bæjarstjórnin ætlaði að lækka kaup í atvinnubótavinnu um þriðjung. Verkamenn söfnuðu liði til þess að mótmæla. Bæjarfulltrúi vinstrimanna var sagður hafa rétt stólfætur út til verkamanna, stólfætur sem nota mætti sem barefli gegn lögreglukylfunum. Ein lögregukylfanna, svört trékylfa er enn í eigu fjölskyldu minnar. Mikið var að gera á læknastofu í miðbænum á meðan á slagnum stóð og eftir hann. Fjöldi manna var handtekinn. Einn þeirra var afi minn sem líka fékk lengsta dóminn enda var hann sagður hafa hvatt til ofbeldis gegn lögreglunni. ,,Berjið naglana niður" er haft eftir honum og deilt um hvað hann hafi átt við með nöglum...
Hægrimenn töldu sumir hverjir að þarna hefði legið nærri kommúnískri byltingu á Íslandi. Ekki veit ég um það en hitt veit ég að þarna hefur örvænting fátækra manna og öfgar í pólítík millistríðsáranna orðið til þess að upp úr sauð.
Í gær mætti fólk hins vegar til þess að mótmæla spilltri valdapólítík og misbeitingu á lýðræðinu. Fjöldi fólks, fólk á öllum aldri kom í Ráðhúsið í hádeginu í gær. Flestir til að mótmæla - sumir til að fagna nýjum meirihluta. Hinir síðarnefndu höfðu þá sérstöðu að geymd höfðu verið sæti fyrir þá. Hægrimenn eru líka eins og menn vita, bæði árrisulir og skipulagðir, auk þess sem þeir virðast hafa tíma og tækifæri til þess að mæta snemma morguns til þess að tryggja sæti á fremstu bekkjunum.
Ég var ekki í hópi þeirra sem fór á pallana - þurfti að fara til vinnu. Hins vegar sá ég og heyrði nógu mikið til þess að sjá að hér var ekki uppþot eða ólæti að ræða. Reyndar voru sumir dónalegir eins og kom fram í sjónvarpinu en flestar létu nægja að hrópa slagorð, klappa og púa. Ef það er aðför gegn lýðræðinu þá veit ég ekki hvað að kalla athafnir Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Nú eða embættisfærslur Árna Matthiesen, eða Davíðs Oddssonar sællar minningar. Nei, ég held að sjálfstæðismönnum væri best að segja sem minnst um lýðræði. Þeir skilja ekki hugtakið.
Ekki síðan í Gúttó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta var góð samantekt hjá þér Ingibjörg og ein sú besta sem ég hef séð um þennan raunalega atburð. Raunalegur er hann í mörgu tilliti og þá ekki síst vegna þeirrar niðurlægingar sem borgarstjórn okkar situr nú í.
Því miður sé ég það fyrir mér að ef valdhroka í íslenskri stjórnsýslu lýkur ekki innan skamms þá muni fara að styttast í Alþingi götunnar og að þá verði skrifuð önnur saga; kannski ekki svo ólík sögunni um Gúttóslaginn.
Árni Gunnarsson, 26.1.2008 kl. 00:39
Það er rétt Anna. En ef fram heldur sem horfir lítur út fyrir að viðVesturbæingar neyðumst til að flytja í Árbæinn - sem þá verður væntanlega búinn að lýsa yfir sjálfstæði sínu
Ingibjörg Stefánsdóttir, 26.1.2008 kl. 01:10
Já, og takk Árni fyrir hrósið. Þú átt ansi góða samantekt um þessa atburði líka; stutta og vel stílaða samantekt í fjórum línum...
Ingibjörg Stefánsdóttir, 26.1.2008 kl. 01:13
Öll mótmæli hafa það sameiginlegt að það er tekið eftir þeim og þau eru óþægileg þeim sem að er bent. Annar samanburður stenst ekki.
p.s. Ingibjörg, afi minn var þarna líka bæjarfulltúi 1932.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 13:01
Frábær pistill hjá þér og gaman að sjá þig blogga á ný. Já, og takk fyrir síðustu helgi. :)
Svala Jónsdóttir, 26.1.2008 kl. 13:47
Hver var afi þinn Gísli?
Og takk sömuleiðis fyrir síðast Svala
Ingibjörg Stefánsdóttir, 26.1.2008 kl. 14:16
Góður pistill Ingibjörg. Það er víst að mótmæli sem þessi eru óvinsæl og trufla ákveðinn hóp manna. Annar hópur "Saving Iceland" átti í vök að verjast í s.l.. sumar vegna mótmæla sinna. Stundum verður fólk að grípa til rótttækra athafna, hafa hátt með því að kalla og hrópa, fremja gjörninga og fleira til að ná athygli á mótmælastöðu sinni og til að láta í ljós vanþóknun á gjörðum. Þá er þetta allt kalla skílslæti og barbarismi! Andmæli í penni kantinum ná einfaldlega ekki eyrum manna, það er heila málið.
Sigurlaug B. Gröndal, 28.1.2008 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.