Færsluflokkur: Bloggar

A-Ö framboðið

Sé að aldraðir og öryrkjar ætla að fara að bjóða fram. Búið að stofna undirbúningsnefnd með nokkrum körlum sem eflaust munu keppa við Frjálslyndaflokkinn um hvernig hægt verður að komast upp með bjóða fram sem fæstar konur. Það er nema "frjálslyndir" hafa vit á því að gera Möggu að varaformanni.

Með þessu sameiginlega A-Ö framboði er enn verið að stimpla það inn í fólk að aldraðir og öryrkjar eigi eitthvað ofboðslega mikið sameiginlegt. Það er rangt. Að vísu hafa eiga flestir þeirra sem eru orðnir 67 ára rétt á lífeyri frá Tryggingastofnun á sambærilegan hátt og þeir sem hafa verið metnir til meira en 75% örorku.  Þar endar samanburðinum.

 Öryrkjar eru, samkvæmt skilgreiningu, óvinnufærir. Þeir geta ekki stundað fulla vinnu vegna einhvers konar heilsubrests eða fötlunar. Sumir geta endurhæft sig og náð aftur fyrri starfsorku en því miður er allt of lítið gert til þess að aðstoða þá við það og þannig hjálpa þeim til þess að hjálpa sér sjálfir. Í hópi öryrkja er fólk sem hefur verið öryrkjar frá unga aldri, hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð og aldrei getað eignast íbúð. Þetta fólk er verulega illa statt ef það þarf að lifa eingöngu af greiðslum Tryggingastofnunar. Aðrir hafa misst heilsuna síðar á ævinni og hafa þá e.t.v. náð að koma sér upp þaki og safna í lífeyrissjóð. Því miður hefur sú söfnun allt of mikil áhrif til skerðingar. Það gera líka þær tekjur sem öryrkjar hafa af því að reyna að vinna. Vinnu sem oft hefur góð áhrif á líðan einstaklingsins og getur átt þátt í koma honum aftur út á atvinnumarkaðinn og af lífeyri. Þarna virka skerðingarreglur hamlandi og gegn endurhæfingu sem getur falist í því að reyna að vinna.

Skerðingarreglurnar virka á svipaðan hátt fyrir ellilífeyrisþega og fyrir öryrkja, þó að nú hafi örlítið verið dregið úr skerðingunni vegna tekna öryrkja. Munurinn felst í aðstöðunni. Í flestum tilfellum hafa ellilífeyrisþegar unnið alla ævi og hafa komið sér upp þaki yfir höfuðið. Það er þó alls ekki algilt, sumir ellilífeyrisþegar voru öryrkjar á meðan aðrir eru forríkir. Einn elilífeyrisþegi á því ekkert endilega svo mikið sameiginlegt með öðrum ellilífeyrisþega nema það að báðir eru orðnir 67 ára. Þannig fara hagsmunir bankastjóra á eftirlaunum og Eflingarkonu á eftirlaunum bara alls ekki saman.

Bankastjórinn vill lægri fjármagnstekjuskatta, lægri fasteignagjöld, sem minnsta ef nokkrartekjutengingar og svo auðvitað fína þjónustu þegar hann kemur heim til Íslands í sumarfrí frá Bahamas þar sem hann annars heldur til og á í rauninni heima. Hann hefur verið að velta því fyrir sér að flytja lögheimilið sitt þangað vegna skattareglna en komst svo að því að þá þyrfti hann að borga stórfé fyrir að koma í sitt reglulega kransæðatékk heima á Íslandi, þannig að hann sleppti því og lætur endurskoðandann hjálpa sér að fiffa mál þannig að hann komist upp með að búa á Bahamas, borga sem minnsta skatta á Íslandi og njóta góðs af íslenska sjúkratryggingakerfinu þegar honum hentar. Þegar hann verður enn eldri ætlar hann svo auðvitað heim á einkarekna hjúkrunarheimilið sem hann hefur styrkt byggingu á. Hann treystir ekki alveg hjúkrunarfólkinu úti. Hér heima eru þó að minnsta kosti hjúkkurnar og læknarnir íslensk - ennþá.

Eflingarkonan vill komast af. Svo einfalt er það.   

Hagsmunir þessa fólks fara ekki saman nú og gera það ekkert frekar þó að stofnað sé sérstakt framboð aldraðra og öryrkja. Í forystu eldri borgara hefur gjarnan valist fólk sem sjálft hefur verið í góðum stöðum. Haft það ágætt og hefur það enn. Það fólk á erfitt með að skilja áhyggjur þeirra sem lægstu lífeyrisgreiðslurnar hafa, þurfa að lifa á strípuðum almannatryggingabótunum. En skilur hins vegar betur áhyggjur kvótaekkjunnar sem vissulega hefur ekki háar tekjur en á miklar eignir og býr ein í þrjú hundruð fm. einbýlishúsi sem hún þarf auðvitað að borga fasteignafgjöld af. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að til forystu í þessu nýja framboði sé einmitt að veljast svona fólk. Fólk sem skilur stóreignafólkið í hópi eldri borgara - og af þeim er svo sannarlega nóg - en á erfiðara með að sitja sig í spor hinna sem minnst hafa.

 Við skulum vona að svo sé ekki. Að þetta framboð muni berjast fyrir hag þeirra sem verst kjör hafa. Við skulum líka vona að þetta framboð verði ekki til þess að stjórnin haldi velli.


Nefskatturinn felldi frú Thatcher

margaret_thatcherÁrið 1990 var settur á nýr skattur í Bretlandi. Þremur árum fyrr hafði Íhaldsflokkur Margrétar Thatcher unnið meirihluta í þriðja skiptið í röð. Frú Thatcher virtist ósigrandi - en þá kom nefskatturinn til sögunnar. Aldrei hafði jafn óvinsæll skattur verið settur á í því landi og þessi "poll tax". Hann þótti lýsandi fyrir fyrirlitningu Thatcher og ríkisstjórn hennar á þeim sem minna höfðu og varð kveikjan að mótmælum um allt landið.  Vorið 1990 tóku yfir 200.000 manns þátt í mótmælum gegn skattinum. Skatturinn var sérstaklega óvinsæll vegna þess að hann kom jafnt niður á öllum þeim sem vildu skrá sig á kjörstað. DefyPollTaxMargir litu svo á skattinum væri sérstaklega ætlað að koma í veg fyrir að hinir fátækari - þeir sem voru líklegri til þess að kjósa Verkamannaflokkinn - kysu.

 

Nefskattur ásamt andstöðu frú Thatcher við Evrópusambandið og deilur innan hennar eigin flokks urðu til þess að fella Margaret Thacher bæði sem forsætiráðherra og formanns Íhaldsflokkurinn. Við tók John Major sem nokkrum árum síðar varð að lúta í lægra haldi fyrir Tony nokkrum Blair sem enn situr. Það var þessi baráttu gegn nefskattinum sem sósíalistarnir á The Militant kalla:

The Battle that brought down Thatcher

 Hér á Íslandi er íhaldsstjórn sem nýlega hefur samþykkt nýjan skatt; nefskatt sem mun koma sérstaklega illa niður á þeim sem hafa lágar tekjur. Hins vegar verða þeir sem lifa á fjármagnstekjum undanþegnir skattinum. Þessi skattur var samþykktur á Alþingi í morgun sem þáttur í nýjum lögum um Ríkisútvarpið OHF. Hann er enn eitt dæmið um þá ranglátu skattlagningu sem þessi ríkisstjórn stundar. Hún leggur ekki á hátekjuskatta. Ónei, þá afnemur hún. Ríkisstjórn Íslands leggur hins vegur á lágtekjuskatta. Kannski þessi nýji lágtekjuskattur þeirra verði síðasti naglinn í líkkistu íhaldsstjórnarinnar okkar. Þorgerður Katrín er engin Thatcher og Geir Haarde á heldur ekki mikið sameiginlegt með járnfrúnni. En kannski þau muni eiga þetta sameiginlegt með frú Thatcher: Að falla á nefskattinum.


Hjálmar hættir í pólítík - en vill samt ráða.

Jæja, það hlaut að koma að þessu. Komin á Moggabloggið. Það á svo eftir að koma í ljós hversu dugleg ég verð að skrifa.

 

Annars er það merkilegt með hann Hjálmar Árnason; fellur í prófkjöri, segist vera hættur í pólítík en þykist samt vera í stöðu til þess að skipta sér af því hver kemur í stað hans á lista Framsóknarflokksins á Suðurlandi. Hann fékk ekki brautargengi og þar með er enginn Suðurnesjamaður á listanum. Það var hins val þeirra sem þátt tóku í prófkjörinu og lítið við því að gera. Svo er það auðvitað spurning hvers vegna það þarf að vera svona mikilvægt að fá Suðurnesjamann á þing. Er ekki t.d. mikilvægara að fá hugsjónamanneskju á þing, einhverja sem hugsar um hag almennings, sama hvar sá ágæti almenningur býr?

 Það er stundum eins og kjördæmapotið hafi bara versnað við stækkun kjördæmanna, nú þarf ekki bara að hugsa um að á listunum séu ungir og gamlir, fólk úr ýmsum stéttum o.sv.fr.v, heldur virðist líka alveg bráðnauðsynlegt að þar sé líka fólk úr öllum afkimum viðkomandi kjördæmis. Hins vegar virðist það ekki eins mikilvægt þeim sem svona hugsa að ofarlega á lista séu bæði karlar og konur. Það var ekki fyrr en Hjálmar blessaður var fallinn, hættur og horfinn úr pólítík sem það var orðið mikilvægt að fá konu frá Suðurnesjum. Spurning hvort þurfi ekki bara að gera eins og hann Björgvin G. leggur til og koma á einu kjördæmi fyrir allt landið. Þá eru kannski líkur á því að konum á þingi fjölgi eitthvað en því miður virðist þeim ætla að fækka eftir þessar kosningar.

 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband