Dóttir mín Daninn

Stundum er fólk að velta því fyrir sér hvað felist í því að vera Íslendingur. Dóttir mín er með það á hreinu. Hún er nefnilega dönsk. Hún fæddist í Danmörku og þar með er hún, samkvæmt eigin skilgreiningu, dönsk. Aðspurð játar hún stundum að hún sé kannski íslensk líka en þegar kom að því að Danir og Íslendingar ættu að keppa í handbolta þá var það alveg ljóst að hún hélt með Dönum. Reyndar lýsti Gísli pabbi hennar þessu miklu betur:

"Þorbjörg

Í morgun sagði hún Þorbjörg mín (5 ára) "Ég veit alveg hvað gerðist þarna" og svo benti hún á forsíðu Fréttablaðsins frá því í gær.  Hún var ansi stolt enda hefur hún nokkurn áhuga á fréttum en finnst svolítið leiðinlegt að skilja ekki hvað er að gerast jafnvel þó hún hlusti og hafi sig alla við (rétt að hafa það í huga við kennslu því stundum heyrum við eða skiljum ekkert þó við séum að hlusta).  Ég var hins vegar ekki búinn að heyra íróníska tóninn í röddinni og spurði glaður hvað hefði gerst.  Hún svaraði um hæl: "Danmörk vann Ísland" og svo skellihló hún.  Déskoti klár.

Hún var nefnilega svolítið sár yfir því að ég skildi halda með Íslandi þar sem hún dönsk að eigin sögn, enda fæddist hún í Danmörku.  Við ræðum svolítið um þjóðerni tja og allan heimin og mér finnst hún hafa rökréttari og fallegri sýn á Ísland, umheiminn og manneskjur heldur en nýji þjóðernisflokkurinn (sem Margrét var að segja sig úr) sem virðist ætla að gera út á rasískan undirtón. "

Þorbjörg þekkir líka krakka alls staðar að úr heiminum. Þegar við bjuggum í Roskilde þá var einn besti vinur hennar á leikskólanum hann Jakob sem á tyrkneskan pabba og danska mömmu. Svo voru mjög skemmtilegir krakkar þarna frá Afghanistan en pabbi þeirra var síðast þegar ég vissi að sækja um að komast í doktorsnám í verkfræði. Svo var það líka hún Xiu Gai, kínverskur doktornemi í deildinni minni úti. Henni fannst mjög gaman að leika sér við Þorbjörgu enda var hún ekki mjög vön börnum heiman frá sér.  Stóra systir hennar Þorbjargar, hún Nína, eignaðist líka vini alls staðar að úr heiminum og var stundum eins konar tengiliður milli Dananna og hinna. Dönsku krakkarnir sögðu mér að Nína væri ekki "indvandrer" enda er hún bæði ljóshærð og bláeygð og heitir þar að auki - að hluta til, nafni sem fer vel í dönskum munnum. Hún velti þessum skilgreiningur hins vegar ekki mikið fyrir sér og eignaðist vini bæði af tyrkneskum og líbönskum uppruna, auk þeirra perudönsku.  

 Hér á Íslandi á Þorbjörg vini frá ýmsum heimshornum. Á Lindarborg ( www.lindarborg.is ) þar sem hún er í leikskóla hefur verið sett upp kort af heiminum. Í kringum það eru fánar frá ýmsum löndum, líklega milli 15 og 20 fánar. Þetta eru fánar sem tákna löndin sem börnin koma frá enda eru börn frá a.m.k. fjórum heimsálfum á deildinni hennar Þorbjargar. Hún hefur, eins og foreldrarnir, gaman að því að fræða og kenna öðrum og liggur því ekki á liði sínu við að leiðrétta íslenskuna hjá þeim sem henni finnst ekki hafa náð alveg nógu góðum tökum á málinu. Leikskólinn er með virka fjölmenningarstefnu og starfsfólkið er meðvitað um að það skiptir máli fyrir öll börn að hafa góð tök á bæði á íslensku og á sínu eigin móðurmáli. Ég verð þó að játa að hinni dönsku dóttur minni hefur farið svolítið aftur í dönskunni frá því við fluttum heim fyrir tveimur og hálfu ári síðan. 

  Hins vegar verð ég stundum svolítið áhyggjufull. Ekki um börnin sjálf. Heldur um fullorðna fólkið og hvernig það leyfir óttanum og fordómunum stundum að ná tökum á sér. Fordómum sem geta haft áhrif, líka á lítil börn sem annars eru fullkomlega fordómalaus. Ef barn heyrir foreldra sína tala illa um og gera lítið úr fólki af öðrum þjóðernum þá hefur það áhrif á börnin. Alveg eins og tal stjórnmálaforingja um smitsjúkdóma, glæpi og flóðbylgju í tengslum við innflytjendur hefur líka áhrif.

Um slík áhrif skrifaði Guðfríður Lilja bloggvinkona mína alveg frábæra grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember síðastliðinn. Greinin heitir: "Hættu að tala!". Því miður er tengillinn sem var á greinina af bloggíðu Guðfríðar Lilju (http://vglilja.blog.is/blog/vglilja/entry/58392/), ekki lengur virkur en væntanlega geta þeir sem hafa aðgang að gagnasafni Moggans náð í greinina af netinu. Í henni lýsir hún hvernig meiðandi umræða hefur áhrif, brýtur niður og eitrar út frá sér. Ég vona og bið að umræðutónninn hér á landi fari aldrei niður á það plan sem hann er á í Danmörku þar sem lengi virðist hafa þótt í lagi að segja nánast hvað sem er um innflytjendur, ekki síst ef þeir eru múslimar. Þar nýtur minnihlutastjórninnar hægri flokkanna stuðnings Dansk folkeparti sem þannig ver hana falli. Þetta er algengt fyrirkomulag í Danmörku en með þessu móti hefur þessu sannkallaði rasistaflokkur náð ótrúlegum áhrifum m.a. og ekki síst á innflytjendalöggjöfina. Áhrif sem hafa náð alla leið til Íslands því danska löggjöfin er að nokkru leyti fyrirmynd hinnar íslensku t.d. er varðar aldur þeirra sem geta fengið landvistarleyfi vegna hjónabands og fleira slíkt. Það er því dálítið grátbroslegt þegar Sjálfstæðisflokkurinn segist ekki vilja starfa með flokkum sem gera út á útlendingahatur. Það voru nefnilega þeir sem innleiddu það í íslenska löggjöf.

(ps. mér gengur eitthvað illa að ná tökum á að tengja inn á aðrar heimasíður og þætti vænt um ef einhver gæti leiðbeint mér um það)

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband