11.4.2007 | 15:06
Gott mál - en hvenær verður ferðum stofnleiðanna fjölgað aftur?
Gaman að sjá að borgarstjórnarmeirihlutinn er aðeins að taka við sér í umhverfis- og samgöngumálum. Þau mál eru auðvitað óaðskiljanleg eins og allir vita.
Hér er ýmsar góðar tillögur að finna og sjálfsagt að hrósa því sem vel er gert. Hins vegar sakna ég einnar góðrar hugmyndar. Hún snýst um að stofnleiðirnar keyri aftur á tíu mínútna fresti en ekki á tuttugu mínútna fresti eins og nú er. Þetta er ein mikilvægasta aðgerðin til þess að auðvelda og ýta undir notkun á almenningssamgöngum.
Eins og lesendur muna þá var það nefnilega eitt af fyrstu verkefnum nýs borgarstjórnarmeirihluta að fækka ferðum stofnleiða strætó. Ferðir á tíu mínútna fresti voru ein af forsendum nýs leiðakerfis - leiðakerfis sem fékk aldrei tækifæri til þess að sanna sig. Ástæða þess var sú að um leið og nýi meirihlutinn tók við hófst hann handa við að eyðileggja það. Bæði með áðurnefndri fækkun ferða stofnleiða og með því að leggja af eina þeirra; leið S5. Síðarnefnda ákvörðun var tekin aftur enda erfitt að standa á móti öllum Árbænum.
Enn keyra stofnleiðirnar á tuttugu mínútna fresti, nokkuð sem dregur mjög úr gagnsemi þeirra. Hvernig væri að kippa þessu í liðinn, herra borgarstjóri?
Ókeypis í bílastæði fyrir vistvæna bíla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er þetta ekki brot á jafnræðisreglu?
grímnir (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 15:18
Skil ekki alveg, er hvað brot á jafnræðisreglu?
Ingibjörg Stefánsdóttir, 11.4.2007 kl. 15:42
Þetta veit allt á gott og stendur vonandi eins og stafur á bók. Ég er sammála þér, Ingibjörg, um að fjölga ferðum á stofnleiðum og svo er ég hlynnt þéttingu byggðar til að auðvelda okkur enn frekar að bæta almenningssamgöngur. En ég vildi að allir fengju ókeypis í strætó, ekki bara námsmenn. Þá myndu kannski fjölskyldur láta einn bíl duga og það yrði gott fyrir umhverfið.
Berglind Steinsdóttir, 11.4.2007 kl. 18:27
Það að gera upp á milli borgaranna eftir því hvernig ökutæki þeir eiga.
grímnir (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 18:48
Það eru engar almenningssamgöngur á Íslandi nema strætó til Akraness!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.4.2007 kl. 20:04
Já Berglind, auðvitað ættu almenningssamgöngur að vera ókeypis eins og á Akureyri og í Reykjanesbæ. Þar hefur farþegum fjölgað verulega sem aftur léttir á umferðinni og minnkar mengun.
Og Grímnir, það er ekki brot á jafnræðisreglu á nokkurn hátt enda mætti þá eins segja að það væri brot á jafnræðisreglu að sumir mættu óáreittir menga meira en aðrir.
Ingibjörg Stefánsdóttir, 11.4.2007 kl. 21:21
Ég held að grímnir hljóti að vera að grínast, annars væru allar ívilnanir brot á jafnræðisreglu.
Berglind Steinsdóttir, 12.4.2007 kl. 07:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.