14.4.2007 | 01:33
Þá er það framkvæmdastjórnin!
Þá er komið að því; ég er komin í framboð til framkvæmdastjórnar og því um að gera að tala við sem flesta og kynna sig sem best. Ég hef nefnilega aldrei staðið í kosningabaráttu fyrir sjálfa mig fyrr. Hins vegar hef ég oft unnið í kosningabaráttu, bæði fyrir Reykjavíkurlistann og Samfylkinguna.
Í fyrsta skiptið sem ég bauð mig fram í pólítískt embætti var þegar ég var beðin um að koma í stjórn Verðandi sem var félags ungs alþýðubandalagsfólks og óháðra - og ég var einmitt óháð. Þá fór ég í stjórn sem var undir forsæti eins núverandi og eins verðandi þingmanns; þ.e. Helga Hjörvars og Róberts Marshall. Þar gaf ég út fréttabréf og fór svo á fullt í kosningabaráttuna fyrir Reykjavíkurlistann 1994. Það var ótrúleg stemning og þar skipulagði ég tónleika, skrifaði greinar og sökkti mér svo á kaf að dóttir mín sem þá var fimm ára hélt að ég ynni á kosningaskrifstofu Reykjavíkurlistans á Laugaveginum en ekki hjá Tryggingastofnun aðeins ofar á Laugaveginum.
Eftir frækilegan kosningasigur Reykjavíkurlistans var ég komin með bakteríuna og vildi halda áfram. Ég vildi þó ekki fara inn í neinn einn af þeim flokkum sem stóð að Reykjavíkurlistanum - ekki ennþá. Ég endaði sem formaður Regnbogans - Reykjavíkurlistafélagsins í Vesturbænum.
Það var svo ekki fyrr en 1998 sem ég ákvað að ganga í Kvennalistann. Þá var sameining vinstri aflanna komin á dagskrá og og vildi ég að staða Kvennalistans yrði sem sterkust þar. Þangað hafði ég líka tengsl sem náðu allt aftur til ársins 1992 þegar ég starfaði í ritnefnd Veru. Ég var svo starfsmaður í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1998 og ætlaði svo í kennsluréttindanám um haustið. Það fór á annan veg því um haustið bauðst mér að gerast starfskona Kvennalistans. Fyrir stjórnmálafíkil eins og mig var ekki um annað að ræða en að taka því boði og við tóku spennandi en erfiðir tímar sameiningarveturinn 1998 - 1999. Þar gekk á ýmsu en niðurstaðan varð sú að um vorið var ég enn og aftur farin að starfa í kosningabaráttu og nú fyrir Samfylkinguna.
Einhvern tíminn á þessu tímabili gerðist ég svo talskona Grósku - félags sem fyrst og fremst var stofnað kringum sameiningarhugsjón jafnaðarmanna. Ég var hvorki langlíf né áberandi talsmaður enda var hlutverki Grósku að ljúka nú þegar hugsjónin um sameiningu jafnaðarmanna var að rætast.
Veturinn eftir lauk ég svo kennsluréttindanámi og að því búnu héldum við fjölskyldan til Danmerkur þar sem ég nam menntunar- og stjórnsýslufræði í Roskildeháskóla. Ég fór þó ekki í pólítískt frí því þegar leið að kosningum 2003 stóð ég ásamt fleiri Íslendingum í Danmörku að því að fá Guðrúnu Ögmundsdóttur út og skipulagði fund með henni. Sá fundur breyttist reyndar í fund með fulltrúum flestra framboða þegar stuðningsmenn annarra flokka áttuðu sig á því að Samfylkingin ætlaði að senda fulltrúa sinn út. Niðurstaðan varð fullt Jónshús og mjög skemmtilegur fundur sem vonandi hefur skilað Samfylkingunni nokkrum atkvæðum.
Þegar heim var komið starfaði ég fyrst sem ráðgjafi hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi og síðar sem verkefnastjóri hjá Mími símenntun. Þar starfa ég að fullorðinsfræðslu og menntun þeirra sem skemmsta hafa skólagönguna.
Enn lætur pólítíkin mig ekki í friði. Nú er ég komin í stjórn Samfylkingarfélagsins í Miðbænum, skrifa stundum á Trúnó, tek þátt í ritstýra blaði Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir kosningarnar og fleira og fleira.
Stjórnarflokkarnir tala um að mánuður sé stuttur tími í pólítík. Það er rétt og enn getur margt breyst. Sextán ár eru hins vegar langur tími, allt of langur tími í afturhaldspólítík og forræðishyggju. Ég ætla ekki að leggja á liði mínu, hvorki í kosningabaráttunni né í starfinu í kjölfar kosninga.
Athugasemdir
Ég ætla að kjósa þig fyrir vel unnin störf.
Tómas Þóroddsson, 14.4.2007 kl. 01:44
Gangi þér vel Ingibjörg, SF er heppin að hafa þig um borð...
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.4.2007 kl. 15:12
Ég sem hélt að Tommi væri í Sjálfstæðisflokknum ...
Berglind Steinsdóttir, 15.4.2007 kl. 20:41
Til hamingju með kjörið!
Sigurður Ásbjörnsson, 15.4.2007 kl. 23:56
Ég hef eitthvað verið illa upplýst um helgina, Ingibjörg mín, og var ekki búin að sjá neitt um kjörið (fyrr en núna hjá sas). Til hamingju.
Berglind Steinsdóttir, 16.4.2007 kl. 08:01
Takk, takk
Ingibjörg Stefánsdóttir, 16.4.2007 kl. 09:26
við erum öll heppin að hafa þig, íslendingar, eins og pabba þinn!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.4.2007 kl. 22:41
Ég náði ekki að kveðja þig í dag, en frábært framtak hjá SF
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.4.2007 kl. 20:25
Já, það finnst mér líka. Svo er auðvitað spurning hvað þú kýst í vor....
Ingibjörg Stefánsdóttir, 21.4.2007 kl. 23:16
hahaha Ingibjörg mín, en eins og allir vita er ég forfallin "socialdemokrat" og kvennalistakona! Það eina sem elsku SF vantar að mínu mati eru fleiri konur! "resten er paa plads, som man siger paa dansk!"
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.4.2007 kl. 00:15
Já, og þá er bara að kjósa Samfylkinguna og fá þannig tvær flottar konur (og einn karl) á þing fyrir okkur á suðvesturkjördæmi.
Ingibjörg Stefánsdóttir, 22.4.2007 kl. 00:40
það má strika þennan karakterlausa karl út
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.4.2007 kl. 01:25
Það má alveg strika út - en bara á þeim lista sem maður kýs! Annars verður atkvæðið ógilt...
Ingibjörg Stefánsdóttir, 22.4.2007 kl. 21:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.