20.4.2009 | 22:40
Rósir með Jóhönnu
Fyrir tilviljun gafst mér tækifæri til þess að fara í rósagöngu með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra síðast liðinn laugardag. Það var ótrúleg upplifun. Kannski ekkert skrítið að fólk sé ánægt og hissa þegar sjálfur forsætisráðherrann bankar upp á til þess að gefa rós. Svona frábærum móttökum átti ég samt ekki von á. Það voru allir svo glaðir, allir svo jákvæðir og allir svo hrifnir af Jóhönnu. Fólk óskaði okkur góðs gengis og meirihluti þeirra sem við hittum á göngu okkar um vesturbæinn þennan laugardagseftirmiðdag var mjög hrifinn af Jóhönnu.
Það er kannski ekki að undra enda sýna skoðanakannanir að meirihluti kosningabærra Íslendinga vill að hún verði áfram forsætisráðherra eftir kosningar.
Til þess að það verði að veruleika er aðeins ein leið: að kjósa Samfylkingunni og tryggja þannig áframhaldandi forystu Jóhönnu Sigurðardóttur í ríkisstjórn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.4.2009 | 22:11
Sækjum um eftir kosningar!
Samfylkingin er augljóslega eini kosturinn fyrir þá sem vilja sækja um aðild að ESB. Ekki er hægt að kjósa um ESB fyrr en komið er í ljós hvað kemur út úr samningum.
Sú hugmynd að kjósa um hvort eigi að hefja aðildarviðræður, til þess svo að kjósa aftur um niðurstöður þeirra er auðvitað gjörsamlega út í hött og furðulegt að skynsamir menn láti sér detta aðra eins vitleysu í hug. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að kjósa um það sem við vitum ekki hvað er?
Við vitum ekki hversu góðum árangri við náum í samningaviðræðum við ESB. Það getur verið ágætt að hafa efasemdarmennina í VG með í þeim viðræðum en það er fyrir öllu að Samfylkingin fái afgerandi kosningu næst komandi laugardag. Aðeins þannig getum við verið örugg um að hægt verði að hefja aðildarviðræður að loknum kosningum.
Margir virðast hræddir við Evrópusambandið, hræddir við það fjölþjóðlega samstarf sem í því felst. Alls konar tröllasögur eru sagðar, um að við missum vald yfir auðlindum okkar, að landbúnaðurinn okkar hrynji, atvinnuleysi aukist og við missum allt okkar sjálfsagt. Allt er þetta rangt og það sem meira er, ESB aðild þýðir betri kjör vegna lægri vaxta og lægra vöruverðs. Við höfum ekki efni á að láta ekki reyna á aðildarsamninga.
Evrópustefnan verði á hreinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
2.4.2008 | 09:50
Strandsiglingar eru málið
Mér skilst á forsvarsmanni mótmælanna að það kosti meira en milljón að keyra einn vöruflutningabíl á mánuði. Hann gleymir þó örugglega þeim kostnaði sem hlýst af sliti á vegum þegar þessi tröll keyra um okkar lasburða vegakerfi. Hann gleymir líka að gera ráð fyrir menguninni af bílnum, slysahættunni þegar þessi tröll bruna framúr smábílum á þröngum malarvegum. Já, það er heilmikill kostnaður sem ekki er hér upptalinn.
Lausnin er augljós: Taka upp strandsiglingar aftur. Ódýrara, umhverfisvænna og hættuminna. Ég fæ enn martraðir um að ég sé að mæta trukki að fara framúr þar sem hvorki er pláss né tími til þess. Þessir bílar eiga ekki heima í íslensku vegakerfi og mótmælaaðgerðir þeirra og umferðartafir eru ágætt tækifæri til þess að hækka enn álögur á vörubílstjórarna en styrkja þess í stað strandsiglingar.
Mestu tafir hingað til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.3.2008 | 13:34
Nú er rétti tíminn...
til þess að taka upp strandsiglingar aftur.
Vegakerfið okkar ber hvort sem ekki alla þá þungaflutninga sem nú fara um það. Það er greinilegt á mótmælunum að það er orðið erfitt að reka þessa stóru bíla og því um að gera að nota tækifærið og fara aftur að sigla með vörur milli landshluta. Það er líka miklu umhverfisvænna.
Óku á 3 km hraða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2008 | 01:09
Forgangsröðun meirihlutanna
Það er kominn nýr meirihluti í Reykjavík. Fyrsti nefndarformaðurinn sem heyrist um er formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Guðfaðir nýja meirihlutans; Kjartan Magnússon, gegnir nú því embætti. Síst vil ég gera lítið úr mikilvægi Orkuveitunnar. Þau störf sem þar eru unnin eru auðvitað afar mikilvæg.
Það eru þó fleira mikilvægt en vatn og rafmagn. Það er ekki síður mikilvægt að hugsað sé um velferð barnanna okkar. Ekki síst þeirra barna sem búa við erfiðar og jafnvel óviðunandi aðstæður, t.d. á ofbeldis- eða óregluheimilum eða hafa lent á glapstigum. Þá getur þurft að grípa inn í með stuttum fyrirvara. Til þess höfum við Barnaverndarnefnd. Seta í slíkri nefnd er örugglega mjög erfið enda hefur komið í ljós að rangar ákvarðanir barnaverndarnefnda fortíðarinnar hafa haft ófyrirsjáanlegar og á stundum hræðilegar afleiðingar.
Nú kemur í ljós að sjálfstæðismenn skipuðu í embætti formanns Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, konu sem engan áhuga hefur á formennskunni og biðst undan þessarri vegtyllu. Framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna segir hér hafa verið um handvömm að ræða. Skyldi þessi ,,handvömm" vera táknræn fyrir virðingarröð embættanna í huga sjálfstæðismanna? Virðingarröð sem setur efst vellaunaða formennsku í OR en neðst formennsku í Barnaverndarnefnd. Nefndinni þar sem rætt er um mál ,,óhreinu barnanna hennar Evu", þeirra sem er óþægilegt að hugsa um og hafa hvort sem er alltaf verið til tómra vandræða. Það er embættið sem verður útundan í kaplinum sem þurfti að láta ganga upp með svo miklum hraði að ekki gefst tóm til að staðfesta vilja allra þeirra sem útvaldir eru til að gegna formennsku.
En það skiptir kannski engu máli. Forgangsröðunin er önnur. Nýi meirihlutinn byrjaði á því að lækka fasteignaskatta, lækkun sem skilar meðalheimilum í mesta lagi nokkur þúsund krónum á ári. Það skiptir flesta litlu. Hitt skiptir máli að geta treyst á leikskóla fyrir börnin sín og að ekki þurfi að senda þau heim vegna skorts á starfsfólki.
Mér hugnast betur forgangsröð meirihlutans sem undir forystu Dags B. Eggertssonar hóf starf sitt á að samþykkja sérstaka fjárveitingu til að gera betur við þá sem sinna umönnunarstörfum á vegum borgarinnar. Sá sami meirihluti lauk starfi sínu á því að bjarga Kolaportinu. Stað sem fjöldi fólks sækir um hverja helgi en átti að fórna fyrir bílastæði.
Ef vinnubrögð í anda þessarar ,,handvammar" eru það sem koma skal í stjórn borgarinnar mun málefnaskráin koma að litlu haldi. Jafnvel þó hún sé í sautján punktum.
Skipuð formaður barnaverndarnefndar að henni forspurðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.1.2008 | 00:20
Fráleitur samanburður
Blaðamaður tuttugu og fjögura stunda líkir mótmælunum í Ráðhúsinu í gær við Gúttóslaginn.
Það er rétt að í báðum tilvikum þurfti að fresta fundi í stjórn Reykjavíkur. Þar lýkur samlíkingunni. Reykjavík var bær árið 1932. Hún er borg nú. Fjöldi fólks slasaðist í Gúttóslagnum. Enginn beitti ofbeldi í Ráðhúsinu í gær. Ég veit það. Ég var á staðnum.
Hins vegar tók afi minn, Þorsteinn Pjetursson þátt í Gúttóslagnum. Þar var barist um brauðið. Bæjarstjórnin ætlaði að lækka kaup í atvinnubótavinnu um þriðjung. Verkamenn söfnuðu liði til þess að mótmæla. Bæjarfulltrúi vinstrimanna var sagður hafa rétt stólfætur út til verkamanna, stólfætur sem nota mætti sem barefli gegn lögreglukylfunum. Ein lögregukylfanna, svört trékylfa er enn í eigu fjölskyldu minnar. Mikið var að gera á læknastofu í miðbænum á meðan á slagnum stóð og eftir hann. Fjöldi manna var handtekinn. Einn þeirra var afi minn sem líka fékk lengsta dóminn enda var hann sagður hafa hvatt til ofbeldis gegn lögreglunni. ,,Berjið naglana niður" er haft eftir honum og deilt um hvað hann hafi átt við með nöglum...
Hægrimenn töldu sumir hverjir að þarna hefði legið nærri kommúnískri byltingu á Íslandi. Ekki veit ég um það en hitt veit ég að þarna hefur örvænting fátækra manna og öfgar í pólítík millistríðsáranna orðið til þess að upp úr sauð.
Í gær mætti fólk hins vegar til þess að mótmæla spilltri valdapólítík og misbeitingu á lýðræðinu. Fjöldi fólks, fólk á öllum aldri kom í Ráðhúsið í hádeginu í gær. Flestir til að mótmæla - sumir til að fagna nýjum meirihluta. Hinir síðarnefndu höfðu þá sérstöðu að geymd höfðu verið sæti fyrir þá. Hægrimenn eru líka eins og menn vita, bæði árrisulir og skipulagðir, auk þess sem þeir virðast hafa tíma og tækifæri til þess að mæta snemma morguns til þess að tryggja sæti á fremstu bekkjunum.
Ég var ekki í hópi þeirra sem fór á pallana - þurfti að fara til vinnu. Hins vegar sá ég og heyrði nógu mikið til þess að sjá að hér var ekki uppþot eða ólæti að ræða. Reyndar voru sumir dónalegir eins og kom fram í sjónvarpinu en flestar létu nægja að hrópa slagorð, klappa og púa. Ef það er aðför gegn lýðræðinu þá veit ég ekki hvað að kalla athafnir Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Nú eða embættisfærslur Árna Matthiesen, eða Davíðs Oddssonar sællar minningar. Nei, ég held að sjálfstæðismönnum væri best að segja sem minnst um lýðræði. Þeir skilja ekki hugtakið.
Ekki síðan í Gúttó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.11.2007 | 12:12
Það er svo skrítið
Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2007 | 12:49
Til hamingju Guðrún!
Þetta er mikill heiður og frábær mynd.
Vissi alltaf að hún Guðrún væri frábær ljósmyndari. Á meira að segja myndir eftir hana uppi á vegg heima hjá mér. Spurning hvort eða hvenær hún fer að leggja þetta fyrir sig eingöngu?
Ljósmynd eftir íslenskan ljósmyndara verður sýnd á risaskjá á Times Square | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2007 | 14:37
Gott hjá Jóhönnu !
Nú er bara að vona að þetta gangi vel og greiðlega fyrir sig og að þegar greining er komin verði næg úrræði fyrir börnin. Þarna eru að sjást þess skýr merki að Samfylkingin er komin í stjórn. Ég hef líka heyrt að starfsfólk félagsmálaráðuneytisins hafi varla getað litið upp síðan Jóhanna tók við ráðuneytinu. Þar var allt sett á fullt frá fyrsta degi.
Lagabreytingin um að sjötugir og eldri gætu unnið eins og þá lysti án þess að það skerti greiðslur frá almannatryggingum var hins vegar beint upp úr stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og bjánaleg eftir því. Ég get a.m.k. ekki séð að þessar breytingar hjálpi mikið Eflingarkonunum og körlunum sem ég hef verið að kenna á starfslokanámskeiðum. Oft eru þau orðin gersamlega útslitin eftir að hafa unnið erfiðisvinnu meira og minna frá unglingsaldri. Það hjálpar þeim ekkert að mega vinna eftir 70 ára aldur án þess að þær tekjur skerði. Það væri frekar að hækka tekjutryggingu (sem kemur þeim best sem minnst hafa) og minnka skerðingar vegna lífeyrisstjóðstekna. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga í þveröfuga átt, þær hjálpa þeim sem vel standa en síður hinum.
Nú er bara að bíða eftir því að Jóhanna láti til sín taka í málefnum eldri borgara og öryrkja. Lögin um afnám tekjuteningar eftir sjötugt eru alltof lituð af hugmyndum sjálfstæðismanna.
Teymi stofnuð til að vinna á biðlistum eftir greiningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.5.2007 | 08:56
Verkefni fyrir netlöggu?
Nauðgunarþjálfun á Netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)