11.5.2007 | 00:13
Rós er rós er rós er rós
Í kjölfarið á alveg hreint indælli gönguferð um Vesturbæinn með sjálfum Ellerti Schram lá leiðin á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar. Ellert þekkti auðvitað annað hvort mann og hljóp sporléttur upp og niður stigana og blés ekki úr nös á meðan ég hljóp upp og niður af mæði. Þó er ég fáeinum árum yngri en Ellert. Það er víst ekki nóg að vera ung til þess að vera í góðu formi. Það þarf að vinna fyrir því.
Á kosningamiðstöðinni var líf og fjör; fólk að koma til baka eftir rósagöngurnar, aðrir að sækja bæklinga og merki til þess að dreifa og enn aðrir bara komnir í smá spjall. Nokkrar konur ræddu um Rósastríðið eins og fólk er farið að kalla rósagöngurnar okkar. Það gaf tilefni til smá umræðna um sagnfræði. Þær umræður liðu fyrir skort á sagnfræðingum á staðnum (hvorki Ingibjörg Sólrún né Steinunn Valdís voru viðstaddar). Össur gat hins vegar staðfest að Rósastríðið hefði verið háð í Englandi. Með þær upplýsingar að vopni fór ég heim og fletti Rósastríðinu upp í Google - besta vini forvitnu konunnar.
Örstutt rannsóknarvinna leiddi í ljós að ef orðinu Rósastríð er slegið upp í Google koma fyrst upp nokkrar færslur um kosningabaráttu Samfylkingarinnar vorið 2007. Síðan koma færslur um Rósastríðið sem háð var í Englandi á síðari hluta 15. aldar. Þar börðust tvær ættir um hver ætti að verða konungur. Rósastríðið dró úr áhrifum enska aðalsins.
Nú er spurningin bara hvaða aðall missir áhrif sín í kjölfar hins íslenska rósastríðs .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2007 | 23:44
Paul Nikolov, Sigurður Kári - eða Steinunn Valdís?
Minni kjósendur í Reykjavík norður á að ekki er enn orðið öruggt að Steinunn Valdís Óskarsdóttir samfylkingarkona og fyrrverandi borgarstjóri komist á þing. Sumar kannanir sýna meiri líkur á því að sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári eða hinn vinstri græni Paul Nikolov nái kjöri.
Fyrir það starfsfólk leikskóla sem Steinunn þorði að hækka launin hjá, þrátt fyrir háværar heimsendaspár íhaldsins, er valið auðvitað einfalt.
Fyrir okkur sem þekkjum Steinunni Valdísi er valið líka einfalt. Hún er ein öflugasti stjórnmálakona sem ég þekki. Við þurfum að fá hana á þing. Til þess virðist núna vanta nokkur atkvæði. Er ekki málið að bæta úr því?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 23:34
Og enn semja þeir...
Nóg af peningum til í reiðhöllina. Gaman að því. Kannski, ef vilji hefði verið fyrir hendi hefði verið hægt að finna smá aur í Live Earth tónleikina. Peningar sem hefðu skilað sér margfalt til baka. Slíkur styrkur hefði líka sýnt áhuga okkar fyrir því að vinna að umhverfismálum. Áhuga sem greinilega skortir algjörlega hjá núverandi (bráðum fyrrverandi ) ríkisstjórn.
Samið um reiðhöll í Hrunamannahreppi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2007 | 10:26
Fyrir þá óákveðnu
Könnun sem gerð var á Bifröst fyrir þá sem eiga eftir að ákveða sig hefur farið víða. Mér finnst þessi könnun óþarflega flókin og birti því hér mun einfaldari og betri könnun.
Það var ónefndur tölvunarfræðingur sem bjó þessa könnun til fyrir óákveðna. Valkostirnir eru aðeins þrír og mjög skýrir:
Ef óbreytt ástand þá:
Kjósa Framsókn
Ef framfarir:
Kjósa Samfylkingu
Annað:
Kjósa Vinstri græna
Einfalt, auðvelt og gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2007 | 21:52
Þegar trúin ein er eftir
Stundum verð ég svolítið hissa á verkalýðsforystunni. Eins og þegar hún velur gospelkór til þess að syngja fyrir okkur á 1. maí. Þá get ég ekki aðmér gert að hugsa um Joe Hill, sem samdi ágætis baráttuljóð með línunum; "You´ll get pie in the skye when you die." Eða á íslensku; "Þú færð nóg að éta á himnum." Skilaboðin voru skýr; almúginn átti að vera lítilþægur og hógvær, ekki vera með of mikla heimtufrekju. Þá væri nefnilega von til þess að þessi sami almenningur kæmist til himna. Þar væri allt gott og því engin ástæða til þess að vera að gera of miklar kröfur hérna megin.
Kannski er forystan bara orðin svona vonlaus.
Orðin svona leið á að berja höfðinu við stein hægristjórnar sem engan áhuga hefur á málefnum verkafólks.
Sem engan áhuga hefur á hag lífeyrisþega.
Sem kærir sig kollótta um málefni barna.
Sem rukkar skuldum vafið fjölskyldufólk um stimpilgjöld ef það er svo bjartstýnt að ætla að koma sér upp þaki yfir höfuð.
Sem sparar í tannheilsu barnanna okkar, barnabótunum, vaxtabótunum og öllu því sem ætla mætti að gæti létt venjulegu fólki lífið.
Hægristjórnar sem gerir að fjármálaráðherra mann sem virðist hvorki hafa áhuga né skilning á málefnum ráðuneytis síns.
Stjórnar sem afléttir hátekjuskatti en leggur á lágtekjuskatt.
Já, það er kannski von að verkalýðsforystan sé vondauf og leiti trúarlegar forsjár. Henni til huggunar bendi ég á að nú eru aðeins 11 dagar til kosninga.
Þá verður hægristjórninni hafnað.
Velferð fyrir alla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2007 | 21:32
Deilur innan Framsóknar - Hvers vegna þurfti Jóhannes að víkja?
Ekki get ég að því gert að þetta var það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði um nýja stjórnarformanninn. Að hann ætti að undirbúa jarðveginn fyrir söluna.
Viðbrögð Péturs Gunnarssonar framsóknarvefara virðast benda til sama. Hann rýkur upp yfir orðum Skúla. Lítil spurning um ástæður stjórnarformannsskiptanna virðist ekki milda skap hans, sbr. næstu færslu hér á undan.
Er Framsókn klofin í þessu máli?
Segir að byrjað sé að undirbúa sölu Landsvirkjunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 21:25
Jóhannes Geir vælukjói?
Það er gaman að Pétri Gunnarssyni spunameistara Framsóknarflokksins núna. Hann fer mikinn um orð Skúla Thorodssen um að selja eigi Landsvirkjun. Ekki veit ég hvað er til í því - en óttast þó einkavæðingaráhuga Sjálfstæðisflokksins sem er til alls líklegur í einkavinavæðingunni eins og dæmin sanna.
Þegar framsóknarmenn tala um Landsvirkjun fer þó ekki hjá því að hugurinn reiki til nýja stjórnarformannsins. Þannig er mál með vexti að á nýlegum aðalfundi Landsvirkjunar var skipt um stjórnarformann. Stjórnarformann sem að Framsókn "á". Af einhverjum ástæðum þótti nú ástæða til þess að skipta Jóhannesi Geir, stjórnarformanni til tólf ára, út fyrir Pál Magnússon. Páll er gamall Röskvumaður, bæjarritari í Kópavogi og lítill vinur heilbrigðisráðherra. Þetta kom Jóhannesi á óvart og voru hvorki hann né Siv Friðleifsdóttir ánægð með þessa nýskipun.
http://hux.blog.is/blog/hux/entry/195021/
Ég spurði Pétur um ástæður þess að Jóhannes Geir þurfti að hætta og af hverju lá svona á. Þá kemur í ljós að Pétur telur að Jóhannes sé "vælukjói" og vill meina að slæm ímynd Landsvirkjunar sé honum að kenna. Þessi orð Péturs fóru ekki vel í lesendur síðunnar. Einn þeirra; Ólafur Sveinn, sem segist vera framsóknarmaður er þannig alls ekki ánægður með þessi orð Péturs sem dregur þá heldur í land.
Svona er þá samkomulagið í henni Framsókn. Spurning hvort hún þurfi ekki að fara að hvíla sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2007 | 16:44
Jónína og útlendingalögin
Einn vinkill hefur gleymst í allri umræðunni um tengdadóttur Jónínu og ríkisborgararéttinn. Sá vinkill snýr að því hvers vegna lá svona mikið á að stúlkan fengi ríkisborgararétt. Af hverju þurfti hún að sækja um ríkisborgararétt eftir aðeins 15 mánuði?
Án þess að ég sé sérfræðingur í reglum um dvalarleyfi dettur mér í hug ein skýring. Getur verið að dvalarleyfi stúlkunnar hafi verið að renna út? Getur verið að hún hafi verið að missa dvalarleyfið og það ekki fengist framlengt þrátt fyrir að hún ætti íslenskan kærasta?
Nú er það þannig að útlendingar sem eru í sambúð með Íslendingi eldri en 24urra ára geta fengið dvalarleyfi vegna íslensks maka síns. Getur verið að kærastinn, sonur Jónínu, sé ekki orðinn tuttuga og fjögurra ára og að þess vegna hafi hún ekki getað fengið dvalarleyfi? Þannig hafi óréttlátt og ómannúðleg lög sem Jónína tók þátt í að samþykkja og jafnvel semja, verið farin að bitna á fjölskyldu hennar. Skyldi það vera málið? Rétt er að geta þess að Jónína Bjartmarsdóttir átti sæti í allsherjarnefnd sem fór með þetta mál þegar lögin voru til meðferðar. Þau voru mjög umdeild og efndu ungliðahreyfingar stjórnámalaflokkanna m.a. til undirskriftasöfnunar gegn þeim.
Hér sést hvernig þingmenn greiddu atkvæði um þessi lög: http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=27734
Útlendingalögin ein og sér eru reyndar fullgild ástæða þess að við þurfum að losna við þessa ríkisstjórn.
Lög um útlendinga
2002 nr. 96 15. maí 13. gr. Dvalarleyfi fyrir aðstandendur.Nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara sem búsettur er hér á landi eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum eða búsetuleyfi geta samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi, enda liggi ekki fyrir atvik sem greinir í c-lið 1. mgr. 11. gr. auk þess sem framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði skal vera tryggt, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr.
[Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki og samvistarmaki eldri en 24 ára, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.]1)
[Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir hann þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna.]1)
Dvalarleyfi aðstandanda útlendings skal að jafnaði gefið út til sama tíma og leyfi þess síðarnefnda, þó þannig að það gildi ekki lengur en leyfi hans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.4.2007 | 09:22
Fjöruga kynlífið og kynlífsþrælarnir
Einkennilegt að rætt sé um kynlífsþræla í sömu andrá og fjörugt kynlíf. Ég tengi kynlífsþræla fremur við kúgun og viðbjóð. Þarna virðist þrælarnir bara vera partur af fjörinu.
Steinaldarmenn lifðu fjörugu kynlífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)