24.4.2007 | 13:12
Ekki sama hvaðan kvenfyrirlitningin kemur
Það er gaman að því hvað ýmsir hægrimenn virðast vera orðnir viðkvæmir fyrir karlrembu. Þannig ryðst nú hver sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum fram á ritvöllinn til þess að lýsa yfir andstyggð sinni á orðum Jóns Baldvins í Silfrinu um "ljóskuna í menntamálaráðuneytinu".
Þetta sýnir auðvitað hvað umræðan hefur þróast og hversu mikil áhrif feministar hafa haft. Nú leyfist ekki lengur að tala hvernig sem er um konur. Hvað þá konur í valdastöðum.
Kannski er þó ekki alveg sama hver konan er og þá heldur ekki hver talar.
Auðvitað voru þessi ummæla sendiherrans fyrrverandi algjörlega óþolandi karlremba og sjálfsagt að gagnrýna þau.
Hins vegar man ég ekki eftir að þeir sem mest gagnrýna Jón Baldvin núna hafi haft nokkuð að athuga við ummæli Geirs Haarde um sætustu stelpuna á ballinu. Ekki gagnrýndu þeir heldur orð hans um þær konur sem urðu þungaðar eftir starfsmenn á Byrginu eftir að hafa verið þar í fíkniefnameðferð. Þá benti Geir á að þær hefðu nú orðið óléttar hvort sem var!
Byrgiskonurnar eru auðvitað ekki í neinni valdastöðu. Þær eru þvert á móti á botni samfélagsins. Það er kannski þess vegna sem hæstvirtum forsætisráðherra fannst allt í lagi að sparka í þær og gera lítið úr þeirri kynferðislegu misnotkun sem þær urðu fyrir.
Ég bara spyr.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2007 | 01:33
Þá er það framkvæmdastjórnin!
Þá er komið að því; ég er komin í framboð til framkvæmdastjórnar og því um að gera að tala við sem flesta og kynna sig sem best. Ég hef nefnilega aldrei staðið í kosningabaráttu fyrir sjálfa mig fyrr. Hins vegar hef ég oft unnið í kosningabaráttu, bæði fyrir Reykjavíkurlistann og Samfylkinguna.
Í fyrsta skiptið sem ég bauð mig fram í pólítískt embætti var þegar ég var beðin um að koma í stjórn Verðandi sem var félags ungs alþýðubandalagsfólks og óháðra - og ég var einmitt óháð. Þá fór ég í stjórn sem var undir forsæti eins núverandi og eins verðandi þingmanns; þ.e. Helga Hjörvars og Róberts Marshall. Þar gaf ég út fréttabréf og fór svo á fullt í kosningabaráttuna fyrir Reykjavíkurlistann 1994. Það var ótrúleg stemning og þar skipulagði ég tónleika, skrifaði greinar og sökkti mér svo á kaf að dóttir mín sem þá var fimm ára hélt að ég ynni á kosningaskrifstofu Reykjavíkurlistans á Laugaveginum en ekki hjá Tryggingastofnun aðeins ofar á Laugaveginum.
Eftir frækilegan kosningasigur Reykjavíkurlistans var ég komin með bakteríuna og vildi halda áfram. Ég vildi þó ekki fara inn í neinn einn af þeim flokkum sem stóð að Reykjavíkurlistanum - ekki ennþá. Ég endaði sem formaður Regnbogans - Reykjavíkurlistafélagsins í Vesturbænum.
Það var svo ekki fyrr en 1998 sem ég ákvað að ganga í Kvennalistann. Þá var sameining vinstri aflanna komin á dagskrá og og vildi ég að staða Kvennalistans yrði sem sterkust þar. Þangað hafði ég líka tengsl sem náðu allt aftur til ársins 1992 þegar ég starfaði í ritnefnd Veru. Ég var svo starfsmaður í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1998 og ætlaði svo í kennsluréttindanám um haustið. Það fór á annan veg því um haustið bauðst mér að gerast starfskona Kvennalistans. Fyrir stjórnmálafíkil eins og mig var ekki um annað að ræða en að taka því boði og við tóku spennandi en erfiðir tímar sameiningarveturinn 1998 - 1999. Þar gekk á ýmsu en niðurstaðan varð sú að um vorið var ég enn og aftur farin að starfa í kosningabaráttu og nú fyrir Samfylkinguna.
Einhvern tíminn á þessu tímabili gerðist ég svo talskona Grósku - félags sem fyrst og fremst var stofnað kringum sameiningarhugsjón jafnaðarmanna. Ég var hvorki langlíf né áberandi talsmaður enda var hlutverki Grósku að ljúka nú þegar hugsjónin um sameiningu jafnaðarmanna var að rætast.
Veturinn eftir lauk ég svo kennsluréttindanámi og að því búnu héldum við fjölskyldan til Danmerkur þar sem ég nam menntunar- og stjórnsýslufræði í Roskildeháskóla. Ég fór þó ekki í pólítískt frí því þegar leið að kosningum 2003 stóð ég ásamt fleiri Íslendingum í Danmörku að því að fá Guðrúnu Ögmundsdóttur út og skipulagði fund með henni. Sá fundur breyttist reyndar í fund með fulltrúum flestra framboða þegar stuðningsmenn annarra flokka áttuðu sig á því að Samfylkingin ætlaði að senda fulltrúa sinn út. Niðurstaðan varð fullt Jónshús og mjög skemmtilegur fundur sem vonandi hefur skilað Samfylkingunni nokkrum atkvæðum.
Þegar heim var komið starfaði ég fyrst sem ráðgjafi hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi og síðar sem verkefnastjóri hjá Mími símenntun. Þar starfa ég að fullorðinsfræðslu og menntun þeirra sem skemmsta hafa skólagönguna.
Enn lætur pólítíkin mig ekki í friði. Nú er ég komin í stjórn Samfylkingarfélagsins í Miðbænum, skrifa stundum á Trúnó, tek þátt í ritstýra blaði Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir kosningarnar og fleira og fleira.
Stjórnarflokkarnir tala um að mánuður sé stuttur tími í pólítík. Það er rétt og enn getur margt breyst. Sextán ár eru hins vegar langur tími, allt of langur tími í afturhaldspólítík og forræðishyggju. Ég ætla ekki að leggja á liði mínu, hvorki í kosningabaráttunni né í starfinu í kjölfar kosninga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.4.2007 | 00:45
Gæsahúð
Það var gaman á landsfundi Samfylkingarinnar í dag. Ég fékk oft gæsahúð undir ræðu Ingibjargar Sólrúnar og Helle Thorning Schmidt og Mona Sahling voru báðar frábærar. Það verður gaman þegar þessar þrjár verða allar komnar í stjórn hver í sínu landi.
Þarna fann ég sterkt hvers vegna ég var komin þarna - hvers vegna ég hafði verið að vinna allt þetta pólítíska starf undanfarin ár. Þessar þrjár frábæru konur settu allar jafnaðarstefnuna fram sem forsendu velferðar og vaxtar og sem hinn augljósa valkost fyrir þá sem vilja velferð, fyrir þá sem vilja að allir séu þátttakendur í velferðinni, ekki bara sumir útvaldir. Fyrir þá sem sjá að hægri flokkarnir hafa hvorki áhuga né skilning á velferð.
En við vorum ekki bara komin þarna til þess að hlustaá ræður. Við vorum komin til þess að vinna málefnavinnu og líka til þess að hitta gamla félaga og nýja úr baráttunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2007 | 15:06
Gott mál - en hvenær verður ferðum stofnleiðanna fjölgað aftur?
Gaman að sjá að borgarstjórnarmeirihlutinn er aðeins að taka við sér í umhverfis- og samgöngumálum. Þau mál eru auðvitað óaðskiljanleg eins og allir vita.
Hér er ýmsar góðar tillögur að finna og sjálfsagt að hrósa því sem vel er gert. Hins vegar sakna ég einnar góðrar hugmyndar. Hún snýst um að stofnleiðirnar keyri aftur á tíu mínútna fresti en ekki á tuttugu mínútna fresti eins og nú er. Þetta er ein mikilvægasta aðgerðin til þess að auðvelda og ýta undir notkun á almenningssamgöngum.
Eins og lesendur muna þá var það nefnilega eitt af fyrstu verkefnum nýs borgarstjórnarmeirihluta að fækka ferðum stofnleiða strætó. Ferðir á tíu mínútna fresti voru ein af forsendum nýs leiðakerfis - leiðakerfis sem fékk aldrei tækifæri til þess að sanna sig. Ástæða þess var sú að um leið og nýi meirihlutinn tók við hófst hann handa við að eyðileggja það. Bæði með áðurnefndri fækkun ferða stofnleiða og með því að leggja af eina þeirra; leið S5. Síðarnefnda ákvörðun var tekin aftur enda erfitt að standa á móti öllum Árbænum.
Enn keyra stofnleiðirnar á tuttugu mínútna fresti, nokkuð sem dregur mjög úr gagnsemi þeirra. Hvernig væri að kippa þessu í liðinn, herra borgarstjóri?
![]() |
Ókeypis í bílastæði fyrir vistvæna bíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.4.2007 | 00:01
Hræðsluáróður Framsóknar og Frjálslyndra
Þegar ég var að hlusta á formann Framsóknarflokksins í Kastljósumræðunum áðan lýsa því hvernig gæti farið ef hægt yrði á stóriðjustefnunni þá fannst mér allt í einu að ég hefði heyrt þessa lýsingu áður. En hvar? Svo komst Guðjón Arnar að og þá áttaði ég mig. Hann var að vísu mun hógværari en flokksbræður hans (eru einhverjar konur í Frjálslynda flokknum?) en þarna áttaði ég mig á samsvöruninni. Lýsing Jóns Sig á því hvað gæti gerst ef frekari stóriðjuframkvæmdir væru settar á bið var næstum alveg eins og lýsingar forystumanna Frjálslynda flokksins og auglýsingar um "innflytjendavandamálið". Jú ef ekki verður gert eins og við segjum þá lækka launin, velferðarkerfið hrynur, í stuttu máli ef: A) við höldum ekki áfram með álvæðinguna eða B) við hægjum ekki á fjölgun innflytjenda þá fer allt í kaldakol og það vill auðvitað enginn.
Það er leiðinlegt að fylgjast með því hvernig tveir ágætis menn sem komnir eru í þá stöðu að vera formenn flokks í útrýmingarhættu bregðast við. Hin níræða Framsókn og hinn bráðungi Frjálslyndi flokkur eiga það sameiginlegt að vera í virkilega vondum málum. Framsókn hefur sjaldan eða aldrei mælst jafn lítil jafn lengi og Frjálslyndi flokkurinn gæti þurrkast út af þingi.
Hvað gera bændur (og skipstjórar) þá? Jú, þeir grípa til hræðsluáróðurins. Hræða fólk með verri kjörum, berklafaraldri, hruni velferðarkerfisins, atvinnuleysi. Og já, auðvitað er Framsóknarflokkurinn ekki að daðra við rasisma eins og ég vil meina að Frjálslyndi flokkurinn sé að gera. Hins vegar er flokkurinn gjörsamlega fastur í gamaldags, umhverfisfjandsamlegri og heimskulegri atvinnustefnu. Atvinnustefnu sem þar að auki er að valda gífurlegri þenslu með tilheyrandi vaxtahækkunum og skuldabagga á heimilin í landinu. Og þegar fylgið minnkar þá láta framsóknarmenn sér það ekki að kenningu varða heldur halda áfram að flaðra upp um íhaldið og reka gamaldags stóriðjustefnu.
Eins og ég kunni alltaf vel við hann Jón Sigurðsson.
-------------------------------------------------------------------------------
Já, og auðvitað stóð Ingibjörg Sólrún sig best í þættinum. Málefnaleg og skelegg að vanda. Næstur henni kom Steingrímur og þar á eftir Ómar sem var góður í að orða hlutina skemmtilega og myndrænt. Eina sem Geir Haarde hafði til málanna að leggja var ágætis ábending um það hvað það væri leiðinlegt að tala alltaf um "þetta fólk" þegar verið er að ræða um innflytjendur. Þar var ég sammála honum enda leiðist mér þegar fólki er hrúgað saman í hópa: "innflytjendur", "ellilífeyrisþegar", "unglingar" "börn" o.sv.frv. Við erum að tala um manneskjur hérna. Manneskjur sem eru jafn misjafnar og þær eru margar. Við skulum ekki gleyma því. Og þegar talað eru um "þetta fólk" þá er einhvern veginn búið að setja alla innflytjendur í eina kippu fólks sem líklega er vandamál. Sem er einmitt það sem allar - nema Guðjón Arnar - voru sammála um að væri ekki málið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)